Spá því að verðbólga taki að aukast

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seðlabankinn spáir því að verðbólga hér á landi verði 1,2% á þriðja ársfjórðungi þessa árs, en það er nokkuð minni verðbólga en spáð hafði verið fyrr á árinu. Bankinn gerir ráð fyrir að verðbólgan muni hækka þegar líður á árið og verða 2,2% á síðasta ársfjórðungi og hún verði komin í rúmlega 3% um mitt næsta ár. Það er þó um 1 prósentustigi lægra en kom fram í maíspá bankans. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála sem bankinn gefur út.

Frávikið frá fyrri spá skýrist að sögn bankans af því að gengi krónunnar hefur hækkað talsvert meira en gert var ráð fyrir í maí. Það skýrir bæði minni verðbólgu nú en áður var spáð en einnig spá um hægari aukningu hennar en gert var ráð fyrir í maí. Þá hefur alþjóðleg verðbólga reynst minni og horfur á að svo verði áfram, auk þess sem horfur eru á kröftugri framleiðnivexti í ár.

Segir bankinn að svo virðist vera sem mikill viðskiptakjarabati undanfarin ár, lítil alþjóðleg verðbólga, gengishækkun krónunnar og aðhaldssöm peningastefna hafi að miklu leyti haldið aftur af kostnaðaráhrifum ríflegra launahækkana undangenginna missera. Áhrif gengishækkunar krónunnar taka hins vegar að fjara út þegar líður á spátímann og samkvæmt grunnspánni nær verðbólga hámarki í 3,8% á fyrri hluta ársins 2018.

Samkvæmt núverandi spá er gert ráð fyrir að verðbólgan taki svo að hjaðna á ný og verði komin undir 3% á fyrri hluta ársins 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK