Afkoma VÍS undir væntingum

Forstjóri VÍS segir afkomuna undir væntingum og hana litast enn …
Forstjóri VÍS segir afkomuna undir væntingum og hana litast enn af því tapi sem er af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum. mbl.is/Styrmir Kári

Hagnaður af rekstri Vátryggingafélags Íslands fyrstu sex mánuði ársins nam 238 milljónum krónum miðað við 1.419 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þá námu tekjur af fjárfestingastarfsemi 636 milljónum króna en voru 2.065 milljónir á sama tíma 2015.

Forstjóri VÍS segir afkomuna undir væntingum og að hún litist enn af því tapi sem er af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum.

 „Afkoma tímabilsins var undir væntingum bæði hvað varðar vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi.  Afkoma af vátryggingastarfsemi litast enn af því að tap er af bæði frjálsum og lögboðnum ökutækjatryggingum,“ er haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, í tilkynningu. „Vöxtur iðgjalda var þó ágætur á fyrri helmingi ársins og hækkuðu innlend bókfærð iðgjöld um 11,6% frá sama tímabili í fyrra.  Meðaliðgjöld hafa hækkað en einnig er um að ræða aukningu viðskipta hjá núverandi og nýjum viðskiptavinum. Þá hefur félagið gert samninga um að þjónusta kortatryggingar allra stóru viðskiptabankanna næstu 1-3 árin og nema ný iðgjöld vegna þeirra um 660 milljónum króna á ári frá miðju ári 2016.“

Ávöxtun fjáreigna  nam 1,9% á fyrri helmingi ársins en 2,7% ef einungis er litið til innlendra fjárfestinga.  Styrking krónunnar hafði neikvæð áhrif á afkomu af erlendum eignum félagsins en félagið seldi nær öll skráð erlend verðbréf á fyrsta ársfjórðungi.

Þá var það samþykkt í mars að greiða arð upp á 2,067 milljarða til hluthafa og var það gert 15. apríl síðastliðinn. Félagið keypti eigin hluti fyrir 396 milljónir króna á fyrri hluta ársins og átti alls um 2,2% af heildareiginfé í lok júní. Gjaldþolshlutfall í lok júní var 1,83.

Í lok febrúar gaf félagið út víkjandi skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna en útgáfa skuldabréfanna er liður í endurskipulagningu á fjármagnsskipan félagsins og tilheyrir hún eiginfjárþætti 2. Skuldabréfin voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ Iceland hf. þann 29. júlí sl.

Í tilkynningu VÍS er gert ráð fyrir að áfram verði ágætur vöxtur í innlendum iðgjöldum á árinu og gera áætlanir ráð fyrir að samsett hlutfall á árinu 2016 verði lægra en það var á árinu 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK