Hagnaður Símans eykst milli ára

Hagnaðurinn nam 716 milljónum króna miðað við 532 milljónir á …
Hagnaðurinn nam 716 milljónum króna miðað við 532 milljónir á sama tíma í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekjur Símans á öðrum ársfjórðungi 2016 voru 7.475 milljónir króna samanborið við 7.482 milljónir króna á sama tímabili 2015. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði eða EBITDA var 1.954 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2016 samanborið við 2.062 milljónir króna á sama tímabili 2015. EBITDA-hlutfallið var 26,1% fyrir annan ársfjórðung 2016 en var 27,6% á sama tímabili 2015.

Hagnaðurinn nam 716 milljónum króna miðað við 532 milljónir á sama tíma í fyrra. Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 1.638 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2016 en var 1.691 milljón króna á sama tímabili 2015. Eftir vexti og skatta var handbært fé frá rekstri 1.492 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2016 en 1.432 milljónir króna á sama tímabili 2015.

Vaxtaberandi skuldir voru 23,6 milljarðar króna í lok annars ársfjórðungs 2016 en 24,2 milljarðar í árslok 2015. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 21,1 milljarður króna í lok annars ársfjórðungs 2016.

Hrein fjármagnsgjöld voru 163 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2016 en 474 milljónir króna á sama tímabili 2015. Fjármagnsgjöld voru 467 milljónir króna, fjármunatekjur voru 300 milljónir króna og gengishagnaður 4 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 52,4% í lok annars ársfjórðungs 2016 og eigið fé 32,5 milljarðar króna. 

EM í Frakklandi setti mark sitt á starfsemina

Í fréttatilkynningu Símans er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að afkoman hafi breyst til batnaðar milli ársfjórðunga hjá Símanum, eftir miklar verðlækkanir á farsímamarkaði á fyrsta fjórðungi sem og ófyrirséðar launahækkanir sem fylgdu SALEK-samkomulaginu. Segir hann jafnframt að EM 2016 í Frakklandi hafi sett mark sitt á starfsemina.

„Áskrifendur að nærri ársgamalli efnisveitu Símans hafa ekki verið fleiri, ungu fólki fjölgaði í viðskiptum við Símann í gegnum Endalaust fjölskylduáskriftina og reikitekjur hækkuðu svo um munar.

Hátt í 100 þúsund heimili eiga orðið möguleika á 100 Mb/s tengingu eða meira hjá Símanum. Prófanir á 1 Gb/s hraða eru hafnar og Mílu miðar vel áfram í ljósleiðarauppbyggingu sinni. Þá náði 4G-kerfi Símans í lok tímabilsins til 93% landsmanna. Með Símanum eru fjarskipti á Íslandi á heimsmælikvarða.

Unnið hefur verið hörðum höndum að hnitmiðaðri rekstri og lægri kostnaði innan samstæðunnar. Samkeppniseftirlitið samþykkti sölu Símans á Talenta og Staka til Deloitte á fjórðungnum. Dótturfélögin On-Waves og danskt dótturfélag Sensa draga afkomu samstæðunnar niður á fyrri helmingi ársins og er rekstur þeirra í endurskoðun. Þá krefst næsta launahækkun SALEK enn frekara aðhalds í rekstri Símans sjálfs,“ er haft eftir Orra.

„EM 2016 í Frakklandi setti mark sitt á starfsemina á þessum öðrum ársfjórðungi. Síminn er stoltur af því að hafa sannað sig sem öflugt afþreyingarfyrirtæki í sjónvarpi. Byggt verður á styrkum grunni Símans til framtíðar.“​

Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson, forstjóri Símans. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK