Svartklædda drottningin öll

Rykiel við opnun á sýningu á teikningum sínum árið 2010.
Rykiel við opnun á sýningu á teikningum sínum árið 2010. AFP

Sonia Rykiel, goðsögnin sem hóf feril sinn með því að hanna meðgöngufatnað, er látin. Rykiel var þekkt fyrir frjálslegan lífsstíl og hannaði hún föt fyrir konur sem voru stoltar af líkömum sínum en höfðu ekki endilega tíma til þess að velta sér upp úr nýjustu tísku.

Rykiel var oft líkt við samlöndu sína Coco Chanel, sem var þekkt fyrir að frelsa konur undan lífstykkjunum á þriðja áratug síðustu aldar.

„Fátæklingapeysan“ kom öllu af stað

Rykiel var oft kölluð „drottning prjónaklæðnaðarins“ og hefur hún og nafn hennar verið hluti af tískuiðnaðinum í hálfa öld. Hún stofnaði sitt eigið fyrirtækið árið 1968 en sex árum fyrr hafði hún komist í sviðsljósið fyrir svokallaða „Poor Boy“-peysu, sem var hönnuð þannig að ermarnar voru langar en búkurinn stuttur. Hlaut peysan viðurnefnið í frönskum fjölmiðlum en peysan lét axlirnar líta út fyrir að vera minni, búkinn grennri og leggi lengri.

„Fátæklingapeysan“ var endurhönnuð árið 2013.
„Fátæklingapeysan“ var endurhönnuð árið 2013. Af Facebook-síðu Sonia Rykiel

Fyrst mætti Rykiel gagnrýni fyrir peysuna vegna fyrirferðarmikilla sauma á henni en það breyttist allt þegar franska poppstjarnan Francois Hardy skartaði peysunni á forsíðu tímaritsins Elle í desember 1963.

Þá fóru hjólin heldur betur að snúast og fljótlega mátti sjá leikkonuna Brigitte Bardot og söngkonuna Sylvie Vartan í peysum eftir Rykiel við hin ýmsu tilefni. Þá varð allt vitlaust þegar sjálf Audrey Hepburn fór í verslun Rykiel og keypti sér hvorki meira né minna en fimm peysur.

Í gegnum árin þróaðist hönnun Rykiel út í aðrar tískugreinar en var hún alltaf með hjartað í prjónafatnaði.

Rykiel ásamt fyrirsætum sínum árið 1980.
Rykiel ásamt fyrirsætum sínum árið 1980. AFP

„Liturinn minn er svartur“

Rykiel fæddist í Neuilly, úthverfi Parísar, árið 1930. Hún var elst fimm dætra. Faðir hennar var Rúmeni en móðir hennar rússnesk.

Þegar Rykiel var sautján ára hlaut hún starf við gluggaskreytingar í fataverslun í París. Náði hún þar athygli listamannsins Henri Matisse sem heillaðist af því hvernig hún raðaði upp litríkum treflum. Matisse keypti alla treflana og var það í fyrsta skipti sem Rykiel áttaði sig á hæfileikum sínum þegar kom að sköpun.

Árið 1954 giftist hún verslunareigandanum Sam Rykiel. Þau eignuðust tvö börn saman en skildu árið 1968. Hún giftist ekki aftur.

AFP

Rykiel var auðþekkjanleg þegar hún sást á ferðinni í París, með eldrautt hárið, iðulega klædd í svart. Þá var hún með hvíta húð og græn augu.

„Liturinn minn er svartur,“ sagði hún eitt sinn í samtali við bandarískan tískuritstjóra og það voru engar ýkjur.

Spurð árið 1987 um hennar dæmigerða kúnna sagði Rykiel hana „brothætta en sterka“. „Við erum vinnandi konur,“ sagði Rykiel. „Þar að auki þurfum við að sjá um börn, menn, húsin okkar og fleiri vandamál. Ég reyni að útskýra það í fötunum mínum. Þetta eru föt fyrir lífið á hverjum degi.“

Þá var Rykiel einnig öflug þegar kom að skrifum og skrifaði hún fjölmarga dálka í tímarit, ásamt skáldsögu, barnabók og að sjálfsögðu bók um tísku og hennar eigið líf. Íbúð hönnuðarins í París, með svarta veggi og heilu bunkana af bókum, var samkomustaður fyrir rithöfunda, heimspekinga, tónlistarmenn, leikara, stjórnmálamenn og fræðimenn.

Vildi ekki þurfa að fela bumbuna

Rykiell byrjaði að hanna föt þegar hún gekk með annað barn sitt árið 1961. Á þeim tíma voru meðgönguföt yfirleitt hönnuð til þess að fela bumbuna og fann hún ekkert sem henni líkaði við í búðum. Fannst Rykiel klæðnaðurinn sýna ekkert nema skömm og afsakanir og ákvað því að hanna klæðnað fyrir sjálfa sig þar sem óléttan fékk að njóta sín.

„Ég vildi sýna heiminum hversu hamingjusöm ég var,“ sagði Rykiel í samtali við Newsweek árið 1976. „Tengdamóðir mín skammaðist sín en vinir mínir spurðu hvar þeir gætu fundið svona klæðnað.“

Rykiel var þekkt fyrir að hunsa hefðir og í stað þess hanna föt fyrir ungar konur hannaði hún föt án aldurstakmarka. Sumir sögðu það fáránlegt að reyna að „troða saman“ ungum og eldri konum í svipuð föt.

Á síma tíma bentu aðrir á að fötin væru þægileg, úr góðu efni og á sanngjörnu verði.

Þá fór Rykiel iðulega á skjön við það sem var í tísku. Lagði hún áherslu á buxur þegar pils voru í tísku og bjarta liti þegar jarðlitir tröllriðu öllu.

Hönnun Rykiel náði gríðarlegum vinsældum á áttunda áratugnum og á níunda áratugnum hóf hún að hanna föt fyrir karla og börn, ásamt heimilisvörum, snyrtivörum, nærfötum, ilmvötnum og fylgihlutum.

Fyrirsætur fagna Rykiel á tískusýningu árið 1993.
Fyrirsætur fagna Rykiel á tískusýningu árið 1993. AFP

Glímdi við Parkinson-sjúkdóminn í 19 ár

Árið 1990 voru búðir Rykiel orðnar 200 talsins í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Fjöldi verslana í dag er kominn upp í þúsund.

Rykiel steig til hliðar árið 2009 en dóttir hennar hafði tekið við sem framkvæmdastjóri árið 2007. Árið 2012 tók Fung Brands, fjárfestingafélag í eigu tveggja milljarðamæringa frá Hong Kong, 80% félagsins yfir en fjölskylda Rykiel hélt restinni.

Rykiel hélt áfram að sýna sig og sjá aðra á tískusýningum ásamt því að ferðast og skrifa. Í síðustu bók sinni, „N’Oubliez Pas Que Je Joue,“ eða „Ekki gleyma að ég er að leika“ sem kom út árið 2012 greindi hún frá því að hún hefði greinst með Parkinson-sjúkdóminn 15 árum áður. Kaus hún að halda því leyndu þar til hún gat ekki lengur falið einkennin.

Rykiel ásamt dóttur sinni á tískuvikunni í París 2014.
Rykiel ásamt dóttur sinni á tískuvikunni í París 2014. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK