Vanskil einstaklinga dragast saman

Fjöldi heimila í viðskiptum við Íbúðalánasjóð eru 38.350, um 98% …
Fjöldi heimila í viðskiptum við Íbúðalánasjóð eru 38.350, um 98% þeirra standa í skilum með lán sín. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í júlí námu 298 milljónum króna, en þar af voru 180 milljónir vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í júní 267 milljónum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 9,0 milljónir króna. Þetta kemur fram í skýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir júlímánuð.

Í júlí hækkaði ávöxtunarkrafa HFF24 um 15 punkta, HFF34 um 9 punkta og HFF34 um 22 punkta. Heildarvelta íbúðabréfa nam 4,1 milljörðum króna í júlí samanborið við 7,3 milljarða í júní.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 193 milljónum króna í júlí en uppgreiðslur námu 3,4 milljörðum króna.

Vanskil lækka um 4,4%

Vanskil einstaklinga héldu áfram að dragast saman en í lok júlí nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga tæpum 2,0 milljörðum króna og lækkar um 4,4% milli mánaða. Undirliggjandi lánavirði í vanskilum nam 9,2 milljörðum króna eða um 4,1% útlána sjóðsins til einstaklinga.

Fjöldi heimila í viðskiptum við sjóðinn er 38.350, um 98% þeirra standa í skilum með lán sín. Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam 557 milljónum króna og nam undirliggjandi lánavirði 5,9 milljörðum króna. Tengjast því vanskil 4,1% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila. Heildarfjárhæð vanskila nam 2,5 milljörðum króna, samanborið við 2,6 milljarða í lok júní. Vanskil ná samtals til 4,1% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í júlí 2015 var 8,7%. Vanskil teljast hér lán í vanskilum umfram 90 daga vanskil.

Í skýrslunni segir að í lok júlí 2016 hafi Íbúðalánasjóður átt 809 íbúðir. Sjóðurinn seldi 31 eign í mánuðinum og bættust jafnframt 15 nýjar íbúðir við eignasafnið. Til viðbótar þeim eignum sem seldar voru í mánuðinum hefur Íbúðalánasjóður samþykkt kauptilboð í 98 eignir og vinna nú tilboðsgjafar að fjármögnun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK