Fagna heimild til innflutnings á osti

Erfitt hefur verið að nálgast margar tegundir af útlendum ostum …
Erfitt hefur verið að nálgast margar tegundir af útlendum ostum á Íslandi. AFP

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja það jákvætt að eitt af baráttumálum samtakanna, sem er tollfrjáls innflutningur á ostum, verði heimilaður en slíkur ostur hefur hingað til borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar, segir í tilkynningu SVÞ vegna samkomulags um búvörusamninga.

„ Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra.

Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar fjölgunar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna,“ segir í tilkynningu.

„Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK