38 milljóna halli af rekstri RÚV

Halli upp á 38 milljónir var af rekstri RÚV á fyrstu sex mánuðum ársins, en fjárhagsáætlanir gera ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu á árinu öllu. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu og þeirri staðreynd að hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í í kjölfar lækkunar útvarpsgjaldsins um síðustu áramót og undirritun nýs þjónustusamnings í apríl sl. muni skila sér í kostnaðarlækkunum á seinni hluta ársins.

Tekjur RÚV jukust um 5,9% á fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra en lækkun útvarpsgjalds um síðustu áramót veldur því að opinberar tekjur félagsins ná ekki að halda í við kostnaðarhækkanir sem RÚV verður fyrir vegna aukins kostnaðar við kjarasamninga. Tekjurnar á fyrstu sex mánuðum ársins námu þremur milljörðum og voru rekstrargjöld 2,9 milljarðar. Fjármagnsgjöld voru aftur á móti neikvæð um 146 milljónir.

Í tilkynningunni kemur fram að fjárhagsleg endurskipulagning og breytingaferli síðustu tveggja ára hafi skilað umtalsverðri hagræðingu í rekstri félagsins og jafnvægi hafi náðst í rekstrinum. Stöðugildi voru að meðaltali 256 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Tekið er fram að sala byggingarréttar á lóð félagsins muni skila töluverðum tekjum sem lækki skuldir félagsins. Af varfærnissjónarmiðum hefur söluhagnaður enn ekki verið bókfærður. Þrátt fyrir sölu byggingarréttar verður félagið áfram yfirskuldsett og hefur stjórn Ríkisútvarpsins vakið athygli eigandans, ríkisins, á því að félagið hafi á komandi árum ekki burði til þess að standa undir hinni miklu skuldsetningu án aðgerða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK