Segja veikleika í rammaáætlun

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar …
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á nýtingu og framleiðslu raforku sem er veigamikil uppspretta verðmætasköpunar og atvinnu víða um land. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samtök iðnaðarins gera athugasemdir við framkvæmd verkefnisstjórnar á mati á mögulegri nýtingu virkjunarkosta á Íslandi samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Að mati Samtaka iðnaðarins er mikill veikleiki í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða, mál nr. 853, og vinnu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar.

Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins kemur fram að þau séu ósammála þeirri niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar að byggja ákvörðun um vernd og nýtingu einungis á niðurstöðu tveggja faghópa af fjórum. Þar með vantar samfélagsleg og efnahagsleg áhrif virkjana í rammaáætlun.

Í umsögn sem Samtök iðnaðarins hafa sent atvinnuveganefnd Alþingis kemur fram að samtökin hafi alla tíð stutt þau markmið sem sett eru fram í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun en þær tillögur sem fyrir liggja byggja nær eingöngu á þröngri nálgun sem er mat á neikvæðum áhrifum á umhverfi, náttúru og ferðamennsku.

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að tæplega fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á nýtingu og framleiðslu raforku sem er veigamikil uppspretta verðmætasköpunar og atvinnu víða um land. Samtökin vilja að eins fljótt og kostur er verði lögboðinni vinnu faghópa sem upp á vantar komið inn í matið. Á meðan svo er ekki, er skynsamlegt að bíða með röðun virkjanakosta og náttúrusvæða í verndarflokk rammaáætlunar. Nýta á biðflokk betur á meðan umfjöllun um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif hefur ekki farið fram.

Þá gera Samtök iðnaðarins einnig athugasemdir við vægi neikvæðra áhrifa ferðamennsku í matinu og benda á að mörg orkuver eru fjölsóttir ferðamannastaðir og nægir að nefna Bláa lónið í því samhengi ásamt gestastofum virkjana um allt land. Orkufyrirtæki hafa lagt sig fram við að fella orkumannvirki vel að náttúrunni og sýna athuganir að ferðamenn hafa jákvætt viðhorf til vistvænnar orku og orkuvinnslu. Þessir tveir mikilvægu málaflokkar geta því farið vel saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK