Lífeyrissjóðirnir eiga 3.454 milljarða

Mikilvægi lífeyrissjóða við öflun lífeyristekna hefur aukist og mun sú …
Mikilvægi lífeyrissjóða við öflun lífeyristekna hefur aukist og mun sú þróun halda áfram og hefur Ísland sérstöðu að þessu leyti innan OECD landa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eignir alls lífeyriskerfisins hér á landi í árslok 2015 voru um 3.454 milljarðar króna eða 157% af vergri landsframleiðslu. Er það aukning um tvö prósentustig milli ára.

Þetta kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða við árslok 2015. Í henni segir að lífeyriskerfið sé öflugt og haldi áfram að stækka í efnahagslegu tilliti.

Á síðasta ári voru 26 starfandi lífeyrissjóðir hér á landi í 76 deildum samtryggingar og séreignar. Aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar voru sjö talsins.Tryggingafræðileg staða samtryggingadeilda lífeyrissjóða heldur áfram að batna. Eftir sem áður er staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sú að þeir eru með umtalsverðan halla.

Losun hafta jákvætt skref

Í samantekt FME segir að mikilvægi lífeyrissjóða við öflun lífeyristekna hafi aukist og mun sú þróun halda áfram og hefur Ísland sérstöðu að þessu leyti innan OECD landa. Losun gjaldeyrishafta er mjög jákvætt skref fyrir lífeyrissjóðina og getur með tímanum stuðlað að aukinni áhættudreifingu í eignasöfnum þeirra.

Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða jukust um nærri 11% og voru 2.955 milljarða króna í árslok 2015 sem er um 86% af lífeyrismarkaðnum. Séreignasparnaður í vörslu lífeyrissjóðanna nam 321 milljarði króna og 178 milljörðum króna hjá öðrum vörsluaðilum séreignasparnaðar. Aukning frá fyrra ári nemur 14% hjá þeim fyrrnefndu og 11% hjá þeim síðarnefndu.

Í samantekinni kemur fram að þrír stærstu lífeyrissjóðirnir séu Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður. Hrein eign þeirra nam 1.622 milljörðum í árslok 2015 sem er um helmingur af eignum allra lífeyrissjóðanna en eignir þessara sjóða hvers um sig eru yfir 400 milljarðar.

Næstu átta sjóðir eiga eignir á bilinu 100 til 200 milljarða króna hver. Hlutdeild þessara sjóða er nálægt 37%. Þá eru  fimmtán sjóðir, hver um sig, með minna en 100 milljarða króna í sinni vörslu. Hlutdeild þeirra af af eignum lífeyrissjóðanna er aðeins um 13%. „Vegna aukinna krafna um hagkvæmni í rekstri má búast við samruna sjóða á næstu árum og er það í takt við alþjóðlega þróun,“ segir í samantekt FME.

Verðbréfaeignir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af heildareignum lækkuðu á síðasta ári og voru 38% við árslok. Eignir í erlendri mynt námu um 23% af heildareignum. Af því leiðir að nálægt þrjár af hverjum fjórum krónum í eignasafni lífeyrissjóðanna eru í fjármálaafurðum útgefnum af innlendum aðilum. Þetta hlutfall er mjög hátt samanborið við þau erlendu lífeyriskerfi sem við berum okkur saman við. Um 35% eigna eru bundin í hlutabréfum, skráðum og óskráðum, og er það aukning um nærri 3 prósentustig frá árinu áður.

Iðgjaldagreiðslur jukust um 14%

Samhliða launahækkunum og hærra atvinnustigi á liðnu ári jukust iðgjaldagreiðslur, ásamt aukaframlögum, um 14% á árinu 2015 og námu 162 milljörðum krónum. Útgreiðslur vegna lífeyris námu 112 milljörðum og jukust um 9%

Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er sem fyrr neikvæð og var heildarstaðan með áföllnum skuldbindingum og framtíðarskuldbindingum -38% í árslok 2015. Ljóst er að þörfin fyrir aukaframlög ábyrgðaraðila fer vaxandi á næstu árum og þá sérstaklega hjá lífeyrissjóðum starfmanna ríkisins.

Heildar tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda var að jafnaði jákvæð sem nemur 3%. Vegna hækkandi lífaldurs munu skuldbindingar samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna aukast og tryggingafræðileg staða versna af þeim sökum ef ekki verður gripið til mótvægisaðgerða

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK