Spáir 4,9% hagvexti í ár

Því er spáð að verð íbúðarhúsnæðis hækki um 8,5% í …
Því er spáð að verð íbúðarhúsnæðis hækki um 8,5% í ár, 9,7% á næsta ári og um 6,6% á árinu 2018. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Greining Íslandsbanka spáir kröftugum hagvexti í ár eða 4,9% og á næsta ári er spáð 5,1% hagvexti. Er þetta meiri hagvöxtur en mælst hefur hér á landi um árabil. Í kjölfarið er reiknað með hægari hagvexti árið 2018 eða 3,0%. Landsframleiðsla á mann hefur aukist töluvert og mælist nú mikil í alþjóðlegum samanburði.

Jafnframt hafa þættir í afkomu heimila þróast með hagfelldum hætti og stutt við vöxt einkaneyslu. Má þá helst nefna kaupmátt launa, störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi hjaðnað. Spáir Greining Íslandsbanka því að þessi hagfelda þróun haldi áfram.

24% yfir meðaltali ESB ríkja

Í samantekt skýrslu Íslandsbanka kemur fram að landsframleiðsla á mann hafi aukist talsvert hér á undanförnum árum og er hún nú nokkuð mikil í alþjóðlegum samanburði. Var hún í fyrra, leiðrétt fyrir kaupmætti, 24% yfir meðaltali ESB ríkjanna, sem er jafn hátt og hún fór hæst fyrir efnahagsáfallið 2008. Reikna má með því að Ísland fari enn hærra í þessum samanburði í ár og á næsta ári vegna mikils hagvaxtar hér á landi í alþjóðlegum samanburði.

Þá hafa veigamiklir þættir í afkomu heimila hafa þróast með hagfelldum hætti undanfarið og stutt við mikinn vöxt einkaneyslu, þ.e. til að mynda kaupmáttur launa, sem hefur sjaldan aukist jafn mikið og um þessar mundir, og er aukningin langt umfram þá kaupmáttaraukningu sem varð í síðustu uppsveiflu. Einnig hefur störfum fjölgað nokkuð hratt og atvinnuleysi hjaðnað.

Einkaneysla vaxi um 8,1%

Þá spáir Greiningadeild bankans því að einkaneyslan vaxi um 8,1% í ár að raungildi. Rætist sú spá verður það mesti vöxtur einkaneyslu síðan árið 2005.

Þá hefur verulega bætt í fjármunamyndun í hagkerfinu undanfarin misseri, og er hún nú komin í takt við það sem eðlilegt má teljast í þróuðu hagkerfi. Deildin gerir ráð fyrir að fjármunamyndun aukist um 21,3% á yfirstandandi ári frá fyrra ári. Árið 2017 er spáð 7,2% vexti fjárfestingar, og árið 2018 verður vöxturinn 0,6% að okkar mati.

Ört vaxandi atvinnuvegafjárfesting á hvað mestan þátt í aukinni fjármunamyndun undanfarið. Stór hluti þessa vaxtar tengist ferðaþjónustu beint eða óbeint. Gert er ráð fyrir því að atvinnuvegafjárfesting aukist um 25,6% í ár frá síðasta ári. Á næsta ári er spáð 5,9% vöxtum slíkrar fjárfestingar, en 1,6% samdrætti árið 2018. Samdrátturinn 2018 skýrist einkum af öllu minni fjárfestingu í skipum og flugvélum, sem og tækjum til mannvirkjagerðar, en árið á undan.

Vaxandi kaupmáttur þrýstir íbúðaverði upp

Þá er því spáð að verð íbúðarhúsnæðis hækki um 8,5% í ár, 9,7% á næsta ári og um 6,6% á árinu 2018. Vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna ásamt lýðfræðilegum þáttum, örum vexti í ferðaþjónustu og takmörkuðu framboði nýbygginga mun þrýsta verði upp.

Mun raunverð íbúðarhúsnæðis hækka um 6,9% í ár, 8,0% á næsta ári og um 3,4% á árinu 2018.

Skýrsluna í heild má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK