Þrír áfangastaðir bætast við

Meðal annars verður hægt að fljúga beint til Dresden frá …
Meðal annars verður hægt að fljúga beint til Dresden frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar.

Þrjár nýjar flugleiðir verða starfræktar frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar og fram á haustið. Verður flogið til þýsku borganna Nürnberg og Dresden og pólsku borgarinnar Katowice sem er skammt frá landamærum Póllands að Tékklandi og Slóvakíu.

Greint er frá þessu á vefnum Túrista.is.

Það er flugfélagið Germania sem hefur flugferðir til Nürnberg og Dresden á næsta ári en í byrjun síðasta sumars hófu þær ferðir héðan til Bremen og Friedrichshafen. Vitnað er í talsmann Germania, Kevin Schmidt, sem sagði að ákveðið hafi verið að bæta við áfangastöðum því þeim fannst vanta ferðir frá þessum svæðum.

Þá er það Wizz air sem hefur flugferðir til Katowice næsta sumar, tvsivar í viku. Félagið hóf að fljúga hingað til lands í fyrrasumar og þá frá Gdansk í Póllandi en Wizz air er stærsta lággjaldafélag Austur-Evrópu. Síðan þá hefur Wizz air bætt Íslandsflugi við leiðakerfi sitt frá Varsjá, Búdapest og Vilnius.

Auk þessa verða gerðar tímabundnar breytingar á fluginu hingað frá höfuðborg Litháen því flugbrautirnar þar verða lokaðar frá miðjum júlí og fram til 17. ágúst og á því tímabili verður flugið fært til Kaunas.
Engin önnur flugfélög á Keflavíkurflugvelli bjóða upp á áætlunarferðir til þeirra áfangastaða sem Germania flýgur til en WOW air og Wizz eru bæði með flug til höfuðborga Póllands og Litháen. Wizz er hins vegar eitt um flugið til Gdansk, Búdapest og Katowice.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK