Deutsche Bank dregur bankabréf niður

AFP

Hlutabréf í evrópskum bönkum hafa lækkað mjög í morgun í kjölfar þess að hlutabréf í stærsta banka Þýskalands, Deutsche Bank, lækkuðu um tæp 9% við opnun kauphallarinnar í Frankfurt í morgun.

Í þessari viku hafa fjárfestar selt frá sér hlutabréf og skuldabréf evrópskra banka, vegna vaxandi ótta um fjármagnsstöðu Deutsche Bank. Bankinn stendur frammi fyrir því að þurfa mögulega að borga bandarískum yfirvöldum háar bætur vegna meintra blekkinga við sölu á skuldabréfum með húsnæðisveði.

Meðal annarra evrópskra banka sem hafa lækkað um 4-6% í verði í morgun eru Société Générale í París, Barclays í London, Unicredit í Mílanó og Santander í Madrid.

Á klukkutímanum frá opnun viðskipta höfðu hlutabréf Deutsche Bank lækkaðu m 8,83% og stóðu í 9,91 evru. Fréttir bárust af því í gærkvöldi að tíu vogunarsjóðir hafi tekið bankann út úr eignasöfnum sínum af ótta við fall bankans.

Helsti keppinautur bankans, Commerzbank, hefur fylgt fast á eftir en bréf bankans hafa lækkað um 7,3% í dag.

Tilraunir Deutsche Bank til að hughreysta fjárfesta komust í uppnám um helgina, þegar þýskt tímarit hélt því fram að Angela Merkel kanslari útilokaði afskipti af pattstöðunni á milli Deutsche og bandaríska dómsmálaráðuneytisins, og tæki ekki í mál að hlaupið yrði undir bagga með bankanum í aðdraganda kosninganna sem haldnar verða í Þýskalandi á næsta ári.

Á þriðjudag neitaði Merkel að tjá sig með beinum hætti um möguleikann á að Deutsche Bank fengi ríkisaðstoð. Andreas Dombret, sem situr í stjórn Bundesbank, sagði aftur á móti í ræðu í Vínarborg að „það verði að láta af pólitískum stuðningi við bankageirann“, án þess að tilgreina Deutsche sérstaklega.

Deutsche Bank sagði á mánudag að bankinn hefði ekki óskað eftir að Merkel hlutaðist til um málið fyrir sína hönd í Bandaríkjunum, og að ekki væri heldur fyrirhugað að auka hlutafé í bankanum eða biðja ríkið um aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK