Sumir hafa komið daglega frá fyrsta degi

Jesús og Halla fyrir framan kaffihúsið sitt í Kringlunni með …
Jesús og Halla fyrir framan kaffihúsið sitt í Kringlunni með sonum sínum þremur, Daníel Snæ, Antoni Erni og Tómasi Ara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kaffihúsið Café Roma var eitt af fáum kaffihúsum og veitingastöðum í Kringlunni sem fengu framúrskarandi einkunn í þjónustukönnun Kringlunnar á þessu ári. Eigendurnir, Jesús og Halla, leggja mikið upp úr persónulegri þjónustu og hafa eignast marga vini í hópi viðskiptavina sinna og kynnst fjölskyldum þeirra.

Við höfum eignast marga góða vini hér á kaffihúsinu, enda hafa sumir verið tryggir viðskiptavinir allt frá því fyrsta daginn þegar við opnuðum,“ segir Baskinn Jesús Rodríguez sem á og rekur kaffihúsið Café Roma í Kringlunni ásamt konu sinni, Höllu Sif Guðlaugsdóttur.

„Halla átti sér draum um að stofna kaffihús og við gripum gæsina þegar tækifærið kom fyrir ellefu árum og kaffihúsið var auglýst til sölu,“ segir Jesús og bætir við að viðskiptavinahópurinn sé fjölbreyttur, til þeirra komi fólk sem er með verslanir í Kringlunni, viðskiptavinir Kringlunnar og líka fólk utan af götunni.

„Ég vil meina að við séum með bestu fastakúnna borgarinnar, það er margt eldra fólk sem kemur til okkar daglega og fær sér kaffi og með því. Þetta fólk hefur sýnt okkur mikla tryggð sem okkur þykir vænt um. Þetta eru vinir okkar og við þekkjum orðið fjölskyldur þeirra. Það er gaman að sjá hvernig þetta fólk hefur myndað félagsleg tengsl sín á milli og þessir fastagestir kynnast innbyrðis og mæla sér mót hérna hjá okkur,“ segir Halla og bætir við að þau verði áhyggjufull ef einhver sem hefur komið daglega í áraraðir hættir að koma, þá óttist þau að viðkomandi sé veikur.

Kjósa tíma með börnunum

Jesús segir að þau Halla séu natin við viðskiptavini sína, enda leggi þau mikla áherslu á að vera með persónulega þjónustu.

„Við þrefölduðum veltuna á fyrsta árinu okkar hér og ég vil meina að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að við lögðum hjarta okkar í þetta og að við berum virðingu fyrir starfi okkar og viðskiptavinum. Ánægðir viðskiptavinir sem segja öðru fólki frá upplifun sinni á kaffihúsinu eru alltaf besta auglýsingin.“

Þau bjóða ekki aðeins upp á kaffi og bakkelsi, heldur líka heita súpu og smárétti. „Við erum alltaf með hádegistilboð og þá er mikið að gera, og svo kemur aftur margt fólk í kaffitímanum, milli kl. tvö og fjögur. Okkur hefur staðið til boða að stækka staðinn, en við viljum það ekki, af því að við viljum hafa tíma til að vera með börnunum okkar.“

Þegar Jesús er spurður að því hver sé helsti munurinn á því að reka kaffihús á Íslandi og Spáni, segir hann að allt sé miklu auðveldara og skilvirkara á Íslandi.

„Viðskiptaumhverfi á Spáni er mjög þungt í vöfum og erfitt. Að sækja þar um leyfi til að stofna lítið fyrirtæki getur tekið fjörutíu daga, en á Íslandi tekur það ekki nema þrjá daga. Bróðir minn á veitingastað á Spáni og segir að það sé erfitt að reka fyrirtæki þar. En hér á Íslandi gengur það vel, ef maður er viljugur og duglegur.“

Ást og örlög gripu í tauma

Jesús kom fyrst til Íslands fyrir sextán árum, þegar hann var aðeins 24 ára, en það kom til af því að bróðir hans sá auglýsingu í skólanum þar sem hann lærði til kokks, þar sem óskað var eftir spænskum kokki á Íslandi til að sjá um eldamennsku á Kaffi List yfir eitt sumar.

„Hann sló til og sá fljótt að hér á landi var mikil þörf fyrir fólk í veitingahúsabransanum, svo hann hvatti mig til að koma líka til Íslands. Þá starfaði ég á stað á Spáni, sem er menningarhús með allskonar viðburði og ráðstefnur en hýsir líka þingið. Þetta er því mjög fínn staður og þar þjónaði ég meðal annars forsætisráðherrum Spánar og Baskalands. Stundum tók ég þátt í því með öðrum að skipuleggja mat fyrir rúmlega tvö þúsund manns, þetta var mjög fjölbreytt starf og krefjandi. En mig langaði til að freista gæfunnar svo ég ákvað að prófa að koma til Íslands,“ segir Jesús sem ætlaði að fara aftur til Spánar að sumri loknu, en örlögin gripu í taumana, hann varð ástfanginn af íslenskri konu, henni Höllu, sem var að þjóna á Kaffi List þar sem hann var að elda. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og þau eignast þrjá drengi.

Paradís í 300 ára húsi

Jesús og Halla eru meðvituð um að drengirnir þeirra séu tvítyngdir, tala jafn góða spænsku og íslensku, og þess vegna tala þau alltaf saman spænsku heima. „Okkur finnst skipta miklu máli að þeir geti talað við ömmu sína og afa og annað skyldfólk í mínu heimalandi,“ segir Jesús sem er fæddur og uppalinn í borginni Bilbao sem er í Baskalandi.

„Við reynum að fara þangað að minnsta kosti einu sinni á ári til að heimsækja fjölskylduna og fáum þá að vera í yndislegu 300 ára gömlu sumarhúsi fjölskyldunnar, sem er paradís fyrir okkur. Mér finnst erfiðast við að búa á Íslandi að vera fjarri foreldrum mínum, sem nú eru að eldast,“ segir Jesús og bætir við að hið daglega líf í Baskalandi sé ólíkt því sem er hér í norðri.

„Í Baskalandi fer mikill hluti af lífi fólks fram úti á götu, fólk hittist úti með börnin sín eftir vinnu og allir spjalla og allir þekkja vel aðstæður og lífi nágranna. Á Íslandi er fólk meira innilokað, fólk býr kannski hlið við hlið árum saman án þess að talast við. Ég sakna þessa félagslífs sem kemur auðvitað til af því að veðrið er gott fram eftir kvöldi heima í Baskalandi. Vissulega getur slúður fylgt þessari miklu nánd, en fólk stendur líka þétt saman þegar eitthvað bjátar á.“

Jesús segir Baska vera ólíka öðrum Spánverjum, þeir eigi eldfornt tungumál sem kennt er í grunnskólanum en tali þó spænsku.

„Menningin í Baskalandi er ólík spænskri menningu, Baskar vilja vera sjálfstæðir og stjórna sjálfir sínum málum, heilbrigðiskerfið er til dæmis betra og þróaðra þar en á Spáni. Baskar hafa líka sérstakt útlit, enda eru þeir genetískt ólíkir öðrum Evrópuþjóðum,“ segir Jesús sem var aukaleikari í heimildarmynd um Baskavígin á Íslandi, sem verður sýnd á RÚV fljótlega.

„Mér finnst merkilegt að Baskar hafi komið alla leið hingað til að veiða hvali, og ég veit að til er gömul orðabók sem gerð var á Íslandi og er með mörgum orðum úr basknesku. Þetta kom til af því að Baskar og Íslendingar þurftu að geta átt samskipti vegna viðskipta, en Baskarnir voru með vinnslustöð í landi til að bræða fituna úr hvölunum, sem var mjög verðmæt þá og notuð sem olía. Þetta var gull þess tíma.“

Halla, Daníel og Anton í miðaldaþorpinu Frías í sumar.
Halla, Daníel og Anton í miðaldaþorpinu Frías í sumar.
Hér eru þau Halla og Jesús með drengina sína í …
Hér eru þau Halla og Jesús með drengina sína í sumarfríi umvafin sólblómum í Baskalandi, heimalandi Jesús.
Jesús og Halla saman á rúntinum á hjólafák Jesús.
Jesús og Halla saman á rúntinum á hjólafák Jesús.
Stórfjölskyldan saman að borða paellu á Spáni í sumar.
Stórfjölskyldan saman að borða paellu á Spáni í sumar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK