Erlend merki með áhuga á Íslandi

Framtíðarsýn Smáralindar. Smárabyggð bakvið bygginguna en Norðurturninn fyrir framan.
Framtíðarsýn Smáralindar. Smárabyggð bakvið bygginguna en Norðurturninn fyrir framan.

Opnun H&M verslana hér á landi getur aukið verslun annarra kaupmanna í kring um allt að 30%. Áhrif komu H&M hingað til lands á næsta og þarnæsta ári á markaðinn verða gríðarleg þar sem mikið af þeim viðskiptum sem munu koma þar inn fara nú fram erlendis.

Þetta kom fram í erindi Sturlu Gunnars Eðvarðssonar, framkvæmdastjóra Smáralindar, á morgunfundi Advania í morgun um smásölumarkaðinn á Íslandi.

Eins og fyrr hefur komið fram stendur til að H&M verslun verði opnuð í Smáralind í byrjun september á næsta ári. Þá á einnig að opna H&M verslanir í Kringlunni og Hafnartorgi.

„Ef maður gerir ekki neitt, gerist ekki neitt“

Í erindi sínu fór Sturla yfir tækifæri og áskoranir á smásölumarkaði ásamt uppbyggingu Smáralindar. Miklar breytingar standa þar yfir og að sögn Sturlu var nauðsynlegt að ráðast í þær í ljósi breytinga á ytra umhverfi. Nefndi hann aukinn kaupmátt landsmanna ásamt fjölgun erlendra ferðamanna hér landi. Benti hann á að fjöldi ferðamanna hafi þrefaldast frá árinu 2000 og einkaneysla þeirra er 4,3 sinnum meiri nú en 2005. Þá bætti hann við að tækifæri fælust einnig í tollalækkunum á fatnaði og skóm. „Því var mikilvægt fyrir Smáralind að fara í gegnum naflaskoðun,“ sagði Sturla. „Ef maður gerir ekki neitt, gerist ekki neitt.“

Smáralind réð til sín erlenda sérfræðinga fyrir endurskipulagningaferli verslunarmiðstöðvarinnar. Að sögn Sturlu hafa þeir verið duglegir að kynna Smáralind og Ísland sem áfangastaði fyrir erlenda aðila og finna þeir fyrir miklum áhuga meðal erlendra vörumerkja fyrir Íslandi almennt.

Norðurturninn við Smáralind verður tilbúinn strax við áramót.
Norðurturninn við Smáralind verður tilbúinn strax við áramót. mbl.is/Ofeigur Lydsson

Norðurturninn full útleigður

Norðurturn Smáralindar sem verður opnaður strax í upphafi næsta árs er full útleigður að sögn Sturlu. Hann er ekki í eigu Regins eins og Smáralind en Reginn hefur tekið á leigu tvær neðstu hæðirnar og verða þær samtengdar starfsemi Smáralindar. Þegar hefur bakarí Jóa Fel flutt sig yfir í turninn og þá er gert ráð fyrir því að opnuð verði þar World Class stöð á morgun, laugardag. Á jarðhæðinni verður síðan útibú Íslandsbanka sem verður opnað í byrjun desember. Um er að ræða sameiningu þriggja útibúa, í Garðabæ, Mjódd og Hamraborg og því er ljóst að þarna inn muni koma mikill fjöldi viðskiptavina að sögn Sturlu. Talið er að 800 til 1000 manns muni starfa í turninum en í Smáralind starfa nú þegar 500 manns.

„Þetta er því afskaplega stór vinnustaður,“ sagði Sturla og benti á að þétting byggðar væri mikil áskorun fyrir þetta svæði. Sýndi hann teikningar af Smárabyggð en þar stendur til að byggja 620 nýjar íbúðir. Um er að ræða samstarf milli Smáralindar, Klasa og Kópavogsbæjar en byggðin verður innan lóðar Smáralindar af einhverju leyti. Þá er jafnframt gert ráð fyrir 13.500 fermetra verslunar- og skrifstofuhúsnæði í Smárabyggð.

„Þarna erum við að taka þátt í því að búa til nýjan miðbæ á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Sturla. „Við erum ekki að tala um 101 Reykjavík heldur 201 Kópavogur,“ bætti hann við.

Teikn­ing af Aust­ur­hluta Smáralind­ar eft­ir breyt­ing­ar.
Teikn­ing af Aust­ur­hluta Smáralind­ar eft­ir breyt­ing­ar.

Naflaskoðun nauðsynleg

Smáralind var opnuð í október 2001 og fagnaði því á dögunum fimmtán ára afmæli sínu. Sturla benti á að Smáralind væri ekki gamalt hús þannig séð en þó væri nauðsynlegt að fara í smá naflaskoðun, enda margt breyst á fimmtán árum.

Stærstu breytingarnar sem fyrirhugaðar eru í Smáralind er endurskipulagning á austurenda hússins, þar sem nú stendur Hagkaupsverslun. Að sögn Sturla var ráðist í framkvæmdir ásamt Hagkaupum þar sem verslunin er minnkuð. Í nýjan austurenda kemur m.a. Útilíf ásamt erlendu vörumerki sem ekki hægt er að segja frá. Hagkaup verður enn í austurendanum og glæsilegasta matvöruverslun landsins að sögn Sturlu sem sagði þetta svæði mjög sterkt og öflugt. Það verður opnað eftir breytingar 5. nóvember.

Þá standa einnig til breytingar í vesturenda hússins en þar mun eins og fyrr segir 4.000 fermetra H&M verslun vera opnuð næsta haust. Þar stendur í dag Debenhams verslun sem verður lokað næsta vor. Um er að ræða svokallaða flaggskipsverslun,  sem þýðir að hún  verði aðalverslun H&M hér á landi og býður upp á vörur úr öllum vörulínum fyrirtækisins.

Endurskipulagður austurendi Smáralindar verður opnaður 5. nóvember.
Endurskipulagður austurendi Smáralindar verður opnaður 5. nóvember.

2.600 fermetrar á Hafnartorgi

Þá hefur Reginn einnig samið við H&M um opnun verslunar á Hafnartorgi en Reginn hefur fest kaup á öllu verslunarhúsnæði kjarnans sem rís nú fyrir framan Kolaportið. Um er að ræða 8.500 fermetra rými og tekur H&M 2.600 þeirra.

Sagði Sturla að Reginn hefði metnaðarfull áform um uppbyggingu á svæðinu og að mikilvægt væri að hafa í huga að það þyrfti að bjóða þessum stóru vörumerkjum upp á húsnæði sem standast alþjóðlegan samanburð. Nefndi hann stóra glugga og háa lofthæð í því samhengi og að skortur væri á þessháttar húsnæði í miðborginni. Þá verða 1.100 gjaldskyld bílastæði undir Hafnartorgi sem munu styðja við verslun í miðbænum.

Sturla sagði að áhuginn fyrir Hafnartorgi væri mjög mikill. „Við gætum verið búin að leigja þetta allt út tíu sinnum, áhuginn er það mikill,“ sagði hann og bætti við að aðeins væri búið að ganga frá einum samningi, þ.e. við H&M en Hafnartorg á að vera fullbyggt árið 2018.

Hafnartorg verður fullbyggt árið 2018.
Hafnartorg verður fullbyggt árið 2018. PK arki­tekt­ar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK