„Alvarlegt og óásættanlegt“

Úr fréttaskýringaþætti Panorama. Sýrlensku börnin framleiddu m.a. föt fyrir Asos …
Úr fréttaskýringaþætti Panorama. Sýrlensku börnin framleiddu m.a. föt fyrir Asos verslanakeðjuna.

Marks and Spencer og netverslunin Asos munu bæði bregðast við fregnum þess efnis að sýrlensk flóttabörn hafi verið notuð í efnaverksmiðjum í Tyrklandi sem framleiða föt fyrir fyrirtækin. Í tilkynningu frá Marks and Spencer er málið kallað „gríðarlegar alvarlegt og óásættanlegt“ og að sögn fyrirtækisins var það í þeirri trú að engir Sýrlendingar störfuðu í þeim verksmiðjum sem framleiða fyrir þá efni.

Eins og fram kom á mbl.is í gær leiddi rann­sókn frétta­skýr­ingaþátt­ar­ins Panorama, sem sýnd­ur er á BBC, í ljós að börn flótta­manna eru meðal ólög­legra starfs­manna í fata­verk­smiðjum í Tyrklandi þar sem vinnu­tím­inn er allt að 12 tím­ar, laun­in smán­ar­leg og eng­ar hlífðargrím­ur eru notaðar við meðhöndl­un eit­ur­efna.

Fyrri frétt mbl.is: Flóttabörn í þrælavinnu í Tyrklandi

„Það voru mikil vonbrigði að komast að þessu,“ sagði í tilkynningu frá Marks and Spencer. Að sögn fyrirtækisins er nú verið að vinna náið með birgðasala þess til þess að gera breytingar. Þá hefur fyrirtækið skuldbundið sig til þess að bjóða þeim Sýrlendingum sem störfuðu í verksmiðjunni löglega vinnu til frambúðar.

„Við munum gera allt sem við getum til þess að tryggja að þetta gerist ekki aftur,“ sagði í tilkynningu Marks and Spencer.

Að sögn Asos er verksmiðjan sem var sýnd í heimildarmyndinni ekki ein þeirra sem Asos er í samstarfi við. Þó hafa komið upp mál þar sem þær verksmiðjur sem starfa með fyrirtækinu semja við aðrar verksmiðjur, án vitundar Asos.

„Þetta heldur áfram að vera vandamál þar til við vitum hvar hver einasta flík er gerð, og sama hversu erfitt það er, er það markmið sem við verðum að ná,“ sagði í tilkynningu frá Asos.

Að sögn BBC kom einnig í ljós að Inditex, fyrirtækið sem á m.a. verslunarkeðjuna Zöru, hafi einnig notfært sér sýrlenska flóttamenn á vinnustöðum þar sem unnið er við slæmar aðstæður þar sem hættuleg efni voru notuð.

Að sögn Inditex hefur fyrirtækið áður rannsakað verksmiðjuna sem fjallað var um í frétt BBC og starfar ekki lengur með þeim birgjasala sem um ræðir.

2,7 milljónir skráðra sýrlenskra flóttamanna eru í Tyrklandi. Sumir geta sótt um tímabundið atvinnuleyfi, en aðeins sex mánuðum eftir að þeir hljóta landvistarleyfi í landinu. Margir aðrir þurfa að stunda ólöglega vinnu, á launum langt undir lágmarkskaupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK