„Þetta er alveg gríðarlegur heiður“

Borg Brugghús ásamt Bådin sem er brugghúsið sem keppti á …
Borg Brugghús ásamt Bådin sem er brugghúsið sem keppti á móti Borg í úrslitum, lengst til hægri á myndinni er Hans Tryggvason upphafsmaður keppninnar. Myndin tekin fyrir utan Håndverkerstuene þar sem viðureignin fór fram Aðsend mynd

Borg Brugghús bar sigur úr býtum í matarpörunarkeppninni norræna brugghúsa, Bryggeribråk, sem lauk í Ósló í gærkvöldi. Borg mætti norska brugghúsinu Bådin og sigraði 3-1.

Í keppninni mætast brugghúsin  tvö og tvö í útsláttarfyrirkomulagi. Viðureignirnar fara þannig fram að bornir eru fram þrír réttir sem hvort brugghús hefur valið eigin bjór við og keppt er um hvor bjórinn passar betur með réttinum. Í úrslitaviðureigninni í gær var fyrirkomulagið þó þannig að bornir voru fram fjórir réttir og hvort brugghúsið átti að velja fjóra bjóra. Um 100 manns voru í salnum í gærkvöldi sem greiddu atkvæði.

Nógu tilkomumikið að fá að taka þátt

Eins og fyrr segir sigraði Borg 3-1 og segir Óli Rúnar Jónsson, verkefnastjóri hjá Borg, að liðið hafi við upphaf keppninnar alls ekki búist við að vinna.

„Þetta er alveg gríðarlegur heiður. Okkur fannst nógu tilkomumikið að fá að taka þátt. Við bjuggumst aldrei við því að vinna þetta,“ segir Óli í samtali við mbl.is.

Bjórarnir sem Borg Brugghús notaði í gærkvöldi voru Fjólubláa höndin, Leifur nr. 32, Gréta og Surtur nr. 38. Þeir eru af ýmsum toga en vöktu augljóslega lukku meðal þeirra sem greiddu atkvæði.  

Að sögn Óla Rúnars var Fjólubláa höndin bruggaður úr íslenskum aðalbláberjum, sem voru aðallega tínd á Austurlandi. Leifur er í belgískum saison-stíl, kryddaður með íslensku blóðbergi og beitilyngi. „Það gerir hann mjög matvænan en hann kemur með íslenskan blæ í marga rétti,“ útskýrir Óli.

Þá var eins og fyrr segir bjórinn Gréta einnig notaður, en það er svokallaður Baltic Porter sem að sögn Óla er Oktoberfest-bjór, nefndur eftir engri annarri en Grétu úr Hans og Grétu. Síðasti bjórinn sem Borg bauð upp á heitir Surtur nr. 38 og er imperial stout, með 10,8% áfengishlutfalli.

Fara næst til Finnlands

Alls hófu 24 brugghús leik í Norðurlandakeppni brugghúsa í matarpörunum fyrr á árinu og er þetta þriðja árið sem keppnin er haldin. Bryggeribråk er keppni norrænna brugghúsa í pörun á bjór og mat og fer fram á Håndverkerstuene í Ósló, einum virtasta bjórstað Noregs, sem einnig er veitingahús sem sérhæfir sig í pörun á bjór og mat. Upphafsmaður keppninnar er Hans Tryggvason, 35 ára Íslendingur sem fluttist til Svíþjóðar aðeins 7 ára gamall en hefur verið búsettur í Noregi undanfarin 15 ár og bjó þar á undan í Svíþjóð í meira en 10 ár.  Hans er fyrsti Íslendingurinn til að útskrifast með bjór sommelier-gráðu, sem hann hlaut hjá Bresku bjórakademíunni árið 2014.

Að sögn Óla er mikið fram undan hjá Borg, en nú mun liðið fara til Finnlands þar sem það mun brugga með tveimur finnskum brugghúsum og jafnframt taka þátt í stærstu bjórhátíð Finnlands, Aalut Expo, um helgina.

Bruggmeistarar Borgar fyrir utan Håndverkerstuene í gær. Frá vinstri: Valgeir …
Bruggmeistarar Borgar fyrir utan Håndverkerstuene í gær. Frá vinstri: Valgeir Valgeirsson, Árni Long og Sturlaugur Jón Björnsson Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK