Eimskip búið að kaupa Gullfoss

Sailor sem áður hét Gullfoss.
Sailor sem áður hét Gullfoss. mbl.is/Árni Sæberg

Eimskip hefur keypt skipsnafnið Gullfoss af ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Sailors. Samgöngustofa veitti  fyrri eiganda nafnsins, Searanger ehf. sem starfrækti samnefnt hvalaskoðunar- og sjóstangveiðiskip, einkarétt á nafninu í maí 2014 og kærði Eimskip ákvörðunina í júlí sama ár. Innanríkisráðuneytið staðfesti einkarétt Searanger á síðasta ári. 

Nafnið Gullfoss hafði ekki verið skráð í skipaskrá og því gat Searanger á sínum tíma tryggt sér nafnið á löglegan hátt.

Frétt mbl.is: Eimskip missir Gullfoss

„Mjög gott samkomulag“

Að sögn Ólafs William Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips, var nafnið keypt fyrir um einum og hálfum mánuði.

„Það var mjög gott samkomulag sem náðist. Þau nálguðust okkur með þetta. Þau voru að fara að breyta um nafn og buðu okkur nafnið til sölu,“ segir Ólafur, en nýja nafnið á skipinu sem áður hét Gullfoss er Sailor. 

Spurður út í verðið segir Ólafur að það hafi verið „lítið í sögulegu samhengi“.

Í kæru sinni árið 2014 vísaði Eimskipafélagið til þess að saga íslenskrar þjóðar, Eimskipafélagsins og Gullfoss væri samofin í hugum almennings. Skipið hefði verið lífæð landsmanna á síðustu öld og að Gullfoss tengdist mörgum helstu atburðum íslensks þjóðlífs síðustu 100 ár.

Frétt mbl.is: „Helgispjöll að nota Gullfoss nafnið“

Gamli Gullfoss á siglingu við Vestmannaeyjar.
Gamli Gullfoss á siglingu við Vestmannaeyjar.

Gullfoss, sem kom hingað til lands árið 1915 og sigldi undir merkjum Eimskipafélagsins, var selt árið 1947. Árið 1950 var Eimskipafélaginu afhent nýtt skip sem tók við nafninu Gullfoss en áætlunarferðum þess lauk 1973 eftir að það skemmdist við björgunarstörf í Heimaeyjargosinu.

Ákváðu að áfrýja ekki

Til greina kom hjá Eimskipi að áfrýja úrskurði innanríkisráðuneytisins, sem hafði staðfest einkaréttinn, en ákveðið var að gera það ekki. „Við höfðum ekkert upp úr því að áfrýja einhverju sem er alveg kýrskýrt. Við ákváðum að kaupa nafnið af þeim þegar þeir nálguðust okkur. Eðlilega er mikil saga á bak við þetta nafn hjá félaginu og við töldum eðlilegt að það væri hjá okkur,“ greinir Ólafur frá, en Eimskip hefur núna skráð nafnið í skipaskrá.

Ólafur William Hand er lengst til vinstri á myndinni.
Ólafur William Hand er lengst til vinstri á myndinni. mbl.is/Ómar

Finna góð not fyrir nafnið 

Hann segir að fyrirtækið muni „klárlega“ nota nafnið Gullfoss þegar fram líði stundir. „Hvernig við gerum það veit ég ekki. Við erum skráðir eigendur að nafninu og munum finna góð not fyrir það í framtíðinni.“

Eftirsjá hjá Eimskipsmönnum

Reykjavík Sailors hefur starfað við Reykjavíkurhöfn síðan í febrúar á þessu ári og býður upp á ýmsar ferðir út á haf, svo sem hvala-, lunda- og norðurljósasiglingar.

Valdís Arnardóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að nýir eigendur hafi ákveðið að hafa samband við Eimskip vegna nafnsins því þeim hafi fundist þessar rætur eiga heima hjá þeim.

„Það er okkur enginn sérstakur akkur að skipið beri þetta nafn og við vissum af því að það er talsverð eftirsjá hjá Eimskipsmönnum yfir því að Gullfoss skuli ekki sigla undir þeirra merkjum lengur,“  segir Valdís.

Ljósmynd/Eimskip

Sjálfsagt að afhenda nafnið

Aðspurð segir hún Eimskip ekki hafa beitt þau þrýstingi um að fá nafnið til baka og að öll samskipti nýrra eigenda við Eimskip hefðu verið góð.

„Okkur þykir það alveg sjálfsagt að afhenda Eimskip nafnið aftur. Það er í raun svo sterk saga þarna á bak við og tvö skip hafa borið þetta nafn. Gullfoss var fyrsta vélknúna farþegaskipið og var í millilandasiglingum allt þar til skipið varð innlyksa í seinni heimsstyrjöldinni. Seinna skipið sem sigldi undir nafninu Gullfoss sinnti farþegasiglingum alveg fram til ársins 1973. Gullfoss á einfaldlega að vera hluti af Eimskip, það er ekki flókið.“

Skipið Sailor.
Skipið Sailor. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK