Góð uppskera leiðir til lækkunar

Verð á grænmeti og kartöflum lækkaði um 2,9%.
Verð á grænmeti og kartöflum lækkaði um 2,9%. mbl.is/Hjörtur

Mest áhrif til lækkunar vísitölu neysluverðs í mánuðinum hafði matur og drykkjarvara eða um 0,15 prósentustigsáhrif. Matar- og drykkjarverð lækkaði meira en búist var við og var lækkunin nokkuð jöfn yfir línuna. Verð á brauði og kornmeti lækkaði um 0,8%, kjöt 1,1%, ávextir 4% og grænmeti og kartöflur um 2,9%.

Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans segir að lækkunin stafi bæði af sterkara gengi krónu og góðri uppskeru íslenskra garðyrkjubænda. Eini vöruflokkurinn í matarkörfunni sem hækkaði að einhverju ráði milli mánaða var vatn eða um 2,8%.

Vísitala neysluverðs stóð óbreytt milli mánaða í október og mælist 12 mánaða verðbólga áfram 1,8%. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,28% milli mánaða og mælist nú 0,5% verðhjöðnun á þeirri vísitölu í samanburði við 0,4% verðhjöðnun í september. Í Hagsjá er bent á að breytingin milli mánaða hafi verið minni en spár gerðu ráð fyrir, en Hagfræðideild Landsbankans og greiningardeild Íslandsbanka höfðu spáð 0,1% hækkun milli mánaða og greiningardeild Arion banka 0,2% hækkun milli mánaða.

Þá hafði liðurinn Póstur og sími 0,09 prósentustigs áhrif til lækkunar vísitöluneysluverðs og lækkaði um 3,3% milli mánaða. Í Hagsjá segir að lækkunin skýrist nær eingöngu af lækkun á farsímaþjónustu sem var 4% og internettengingu sem var 4,8%. Alls hefur kostnaður við farsímaþjónustu lækkað um 35% undanfarna tólf mánuði.

Þá var það reiknuð húsaleiga sem hafði mest áhrif til hækkunar milli mánaða eða 0,21 prósentustigs áhrif. Reiknuð húsaleiga hækkaði meira en deildin bjóst við en kostnaður við að búa í eigin húsnæði hækkaði um 1,3% milli mánaða.

Auk þess hækkuðu liðirnir bensín og flugfargjöld til útlanda milli mánaða, eða um 0,04 og 0,03 prósentustig.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK