Álögð gjöld lögaðila 172,4 milljarðar 2015

Álögð gjöld á lögaðila á rekstrarárinu 2015 voru samtals 172,4 milljarðar samanborið við 183,8 milljarða árið á undan. Skýrist lækkunin af því að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki (bankaskattur) var ekki lengur lagður á slitabú fjármálafyrirtækja og því dregst sá liður frá, en hann var 25 milljarðar árið 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Stærstu liðir álagðra gjalda á lögaðila eru tekjuskattur og tryggingagjald, og aukast þeir báðir um rúm 9% frá fyrra ári og gjaldendum fjölgar talsvert. Sérstakur fjársýsluskattur, sem er sérstakur tekjuskattur á fjármálafyrirtæki,  eykst um 12,9% milli ára þrátt fyrir brotthvarf slitabúa og fækkun gjaldenda úr tíu í átta, segir í tilkynningunni.

Álagður tekjuskattur fyrir árið nam 69,7 milljörðum og jókst um 9,3% milli ára. Á bak við gjöldin eru 18.418 fyrirtæki og fjölgaði þeim um 1.013 milli ára , eða um 5,8%. Skatthlutfallið er það sama bæði árin, eða 20%.

Álagning tryggingargjalds nam 82 milljörðum og hækkaði úr 75,1 milljarði árið áður. Það er um 9,2% hækkun milli ára. Gjaldendum tryggingargjalds fjölgaði um 801 milli ára eða um 4,5% og er það mesta fjölgun á einu ári sem sést hefur um árabil. Segir í tilkynningu að það kunni að vera til vitnis um uppgang í ferðaþjónustunni.

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða 20% fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á lögaðila nemur 1.363 milljónum sem er 77 milljónum lægri fjárhæð en á árinu 2015 og lækkar þannig um 5,3% milli ára.

Útvarpsgjald á lögaðila nam 612 milljónum sem er 4,4% lækkun milli ára. Skýrist það meðal annars af  lækkun útvarpsgjaldsins úr 17.800 krónum í 16.400 milli áranna 2014 og 2015. Á móti kemur fjölgun um 1.336 á árinu.

Fjársýsluskattur, sem er innheimtur í staðgreiðslu, er nú lagður á í fjórða sinn. Álagningin nemur 2,9 milljörðum og nær til 145 aðila sem greiða laun í fjármálageiranum. Gjaldstofninn er allar tegundir launa eða þóknana fjármála- og tryggingafyrirtækja. Stofninn nam 52,5 milljörðum rekstrarárið 2015 og dróst saman um 0,2% frá fyrra ári. Skatt­hlutfallið var óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og dróst álagður skattur því einnig saman um 0,2%.

Þá nam sérstakur fjársýsluskattur 6,8 milljörðum og var afsláttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar 1.167 milljónir og hækkaði um 150 milljónir milli ára. Þetta er í sjötta sinn sem afslátturinn er veittur og nýttu 98 fyrirtæki hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK