Kaupmáttur launa aldrei hærri

„Laun virðast hækka mest í byggingastarfsemi sem kemur heim og …
„Laun virðast hækka mest í byggingastarfsemi sem kemur heim og saman við skort á vinnuafli í greininni," segir í Hagsjá. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Á síðustu 12 mánuðum hafa regluleg laun landsmanna hækkað um 10,5%, sem gaf að meðaltali 8,5% kaupmáttaraukningu. Kaupmáttur launa er nú hærri en hann hefur verið nokkurn tíma áður.

Kaupmáttur launavísitölu varð hæstur í ágúst 2007, náði svo aftur sama stigi í nóvember 2014 og hefur aukist um 13,9% síðan þá. Launahækkanir hafa verið miklar síðustu mánuði og fór 12 mánaða launahækkunartaktur upp í 13,4% í apríl í ár.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Regluleg laun voru að meðaltali 2,8% hærri á öðrum ársfjórðungi 2016 en á fjórðungnum á undan og jókst kaupmátturinn um 1,8% á þessu tímabili. Árshækkun launa frá öðrum ársfjórðungi 2015 var 13% sem gaf 11,2% kaupmáttaraukningu. Hækkunin var 13,5% á almennum vinnumarkaði og 12,7% hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 13,7% og laun starfsmanna sveitarfélaga um 11,5%. Sé litið á þróun þessara hópa til aðeins lengri tíma má sjá að frá upphafi ársins 2011 hafa þeir þróast með mjög svipuðum hætti, eða í fimm og hálft ár. Þannig munar einungis 0,4% á launahækkunum almenna markaðarins og hins opinbera á þessu tímabili.

Sé litið á launahækkanir starfsstétta milli annars ársfjórðungs 2015 og 2016 sést að munurinn á milli þeirra er töluverður. Verkafólk hefur hækkað mest og sérfræðingar og stjórnendur minnst. Hækkun verkafólks er tæpum 5 prósentum meiri en hjá stjórnendum.

„Tölurnar gætu þannig verið vísbending um að markmið síðustu kjarasamninga um leiðréttingu fyrir þá lægst launuðu hafi náðst að einhverju leyti,“ segir í Hagsjá.

Sé litið á þróunina í atvinnugreinum frá öðrum ársfjórðungi 2015 hafa laun hækkað mest í byggingageiranum, eða um 16,7%. Næstmesta hækkun milli ára var í verslun og viðgerðarþjónustu, 14,7% og þvínæst í iðnaði.

Þessar tölur benda til þess að markmið  kjarasamninganna á almenna markaðnum um meiri hækkun launa til þeirra lægst launuðu hafi náðst. Þar að auki er kaupmáttarþróunin einstaklega hagstæð, 8,5% kaupmáttaraukning á einu ári er mikil hækkun í sögulegu samhengi.

„Laun virðast hækka mest í byggingastarfsemi sem kemur heim og saman við skort á vinnuafli í greininni. Kannski mætti ætla að mikill innflutningur vinnuafls myndi halda aftur af launahækkunum í greininni en svo virðist ekki vera,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK