Lakari afkoma hjá Landsbankanum

Lægri rekstrartekjur skýrast aðallega af minni hagnaði af hlutabréfum
Lægri rekstrartekjur skýrast aðallega af minni hagnaði af hlutabréfum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 16,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 samanborið við 24,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2015.

Hreinar vaxtatekjur voru 26,2 milljarðar króna og hækkuðu um 4,7% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 5,9 milljörðum króna og hækkuðu um 15% frá sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 12,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Aðrar rekstrartekjur námu 4,7 milljörðum króna samanborið við 8,4 milljarða króna ári fyrr og skýrist lækkunin aðallega af minni hagnaði af hlutabréfum. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 8,5% á ársgrundvelli samanborið við 13,5% á sama tímabili 2015.

Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 41,2 milljörðum króna samanborið við 50,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2015. Rekstrarkostnaður samtals lækkaði um 0,4% á milli ára og er 17,6 milljarðar króna, þar af var launakostnaður 10,4 milljarðar og annar rekstrarkostnaður 7,2 milljarðar. Heildareignir Landsbankans í lok september voru um 1.134 milljarðar króna samanborið við 1.176 milljarða króna ári fyrr og hefur því efnahagur bankans dregist saman um tæp 4% síðustu 12 mánuði.

Landsbankinn greiddi á þessu ári 28,5 milljarða króna í arð í tveimur greiðslum, í apríl og  september. Þann 15. september birti Landsbankinn tilkynningu um að bankinn byðist til að kaupa hluti af hluthöfum samkvæmt endurkaupaáætlun á þremur tilgreindum endurkaupatímabilum. Á fyrsta endurkaupatímabili  keypti Landsbankinn um 120 milljón hluti eða  0,5% af útgefnum hlutum og nam kaupverð þeirra 1,2 milljörðum króna. Endurkaupin geta að hámarki numið samtals 480 milljónum hluta eða sem nemur 2% af útgefnu hlutfé. Í lok september var eigið fé bankans 251,1 milljarður króna.  Eiginfjárhlutfallið var 29,1% samanborið við 29,2% á sama tíma árið áður.

 „Landsbankinn heldur áfram að styrkja stöðu sína sem leiðandi fjármálafyrirtæki hér á landi og hefur  markaðshlutdeild aldrei mælst hærri en á árinu. Gæði eigna hafa batnað  sem og fjármögnun, þökk sé vel heppnuðum skuldabréfaútgáfum erlendis á árinu. Enn eru töluverðar sveiflur í einskiptisliðum, það er í virðisbreytingum á útlánum og hlutabréfum. Ef horft er framhjá þessum liðum batnar afkoman frá fyrra ári þar sem aðrar tekjur hafa aukist vegna aukinna viðskipta og á sama tíma höfum við náð að lækka rekstrarkostnað,“ er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans.

„Landsbankinn hefur greitt verulegar fjárhæðir í arð til eigenda á árinu, hærri en nokkru sinni fyrr. Nýtt og hærra lánshæfismat frá Standard & Poor‘s nú í október staðfestir sterka stöðu bankans. Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins er gott og afkoma er umfram væntingar okkar. Það er ánægjulegt að viðskiptavinir sjá sér hag í að beina viðskiptum í auknum mæli til bankans og að traust fjárfesta á bankanum fer vaxandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK