Töldu 0,25% lækkun ekki nóg

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem hölluðust helst að því að halda vöxtum óbreyttum í nóvember töldu lækkun vaxta upp á 0,25 prósentustig líklega of litla lækkun, heldur þyrfti að lækka vexti verulega og gefa skýr skilaboð um að þeim yrði haldið lágum um einhvern tíma. Það myndi hins vegar stangast á við það vaxtastig sem kann að reynast nauðsynlegt til að halda aftur af innlendum þensluöflum.

Þetta kemur fram í fundargerð Peningastefnunefndar frá síðustu fundum sem fram fóru 14. og 15. nóvember en fundargerðin var birt á vef Seðlabanka Íslands í gær. 16. nóvember greindi nefndin frá ákvörðun sinni um að halda vöxtum bankans óbreyttum í 5,25%.

Augljóslega klofnir í afstöðu sinni

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir þetta undarlegt orðalag í fundargerðinni og ekki nógu skýrt. „Þetta er óvenjuleg framsetning að okkar mati. Það er augljóst að nefndarmenn eru klofnir í afstöðu sinni þar sem þrír kjósa með óbreyttum vöxtum og tveir með lækkun vaxta. Allir nefndarmenn virðast hins vegar sammála um að aðstæður kynnu að hafa skapast til lækkunar vaxta.“

Ásdís segir að ef nefndarmenn hallast að því að aðstæður séu að skapast til vaxtalækkunar þá sé ekkert því til fyrirstöðu að þoka vöxtum neðar.

„Það er furðuleg afstaða að vilja ekki lækka vexti nema það sé gert í stórum skrefum. Lækkun vaxta þó ekki væri nema um 0,25% myndi vera gott fyrsta skref til að lækka vaxtastig í landinu frekar en að ríghalda í það að vera með eina hæstu raunvexti í heimi. Verðbólguspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólgan verði undir markmiði fram til seinni hluta ársins 2018. Vaknar því upp sú spurning hvort það sé þá yfirhöfuð ekki hægt að lækka vexti nema aðeins þegar aðstæður bjóða upp á verulega vaxtalækkun,“ segir Ásdís.

Er þá einhvern tímann tilefni til lækkunar?

Ásdís segir að SA hafi undanfarið bent á að þrátt fyrir að vera á sjötta ári núverandi hagvaxtaskeiðs hafi verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði í nær þrjú ár samfleytt og er útlit fyrir að svo verði áfram.

„Krónan hefur verið í samfelldri styrkingu síðustu árin, tengist það auðvitað miklum straumi ferðamanna, til viðbótar er vaxtastigið hátt og vaxtamunur við útlönd mikill. Það hefur því verið lítill hvati fyrir innlenda aðila að fjárfesta erlendis en við sjáum þess dæmi hjá lífeyrissjóðunum sem hafa ekki fullnýtt sínar heimildir til fjárfestinga erlendis,“ segir Ásdís.

Hún segir SA undrast á því að vextir hafi ekki lækkað á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Þá virðast nefndarmenn einnig vera sammála því að minni vaxtamunur við útlönd gæti aukið hvata innlendra aðila til fjárfestinga erlendis og dregið úr gengisstyrkingu krónunnar sem er að þeirra mati orðin full mikil.

„Eðlilega veltum við því fyrir okkur hvort það sé þá einhvern tímann tilefni til vaxtalækkunar miðað við þau rök sem sett eru fram í fundargerðinni,“ segir Ásdís og ítrekar hversu óskýr skilaboðin séu. „Fundargerðir eru settar fram til að auka gagnsæi og útskýra betur þau rök sem standa að baki vaxtaákvörðun hversu sinni. Fundargerðir hafa því áhrif á væntingar markaðsaðila. Skilaboðin eru að okkar mati óskýr og villandi.“

Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður næst tilkynnt 14. desember.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK