Margir vilja unga úr eggi

Litlir mörgæasarungar klekjast úr þessu eggi.
Litlir mörgæasarungar klekjast úr þessu eggi. Ljósmynd/Spin Master

Lítill mörgæsarungi sem klekst úr eggi og nefnist Hatchimals er vinsælasta leikfangið í leikfangaversluninni ToysRUs  hér á landi. Þrjár sendingar af dótinu hafa komið til landsins í búðina fyrir jólin og hafa selst upp á innan við klukkutíma. Vinsældir ungans sem kemur í öllum regnbogans litum eru ekki eingöngu bundnar við Ísland heldur öll Norðurlöndin og einnig víða um heim. 

Samkvæmt verslunarstjóra ToysRUs í Smáralind hefur dótið einnig selst upp á öllum Norðurlöndunum á skömmum tíma. Verslunin á Íslandi fær vörur frá vöruhúsi verslunarkeðjunnar í Danmörku. Þar er sama staða uppi, fleiri vilja fá en geta. 

„Þetta eru egg sem klekjast út. Þetta er svipað og Furby og krakkarnir þurfa að sinna þessu svo það vaxi,“ segir Sigurður Þorgeir, verslunarstjóri í Smáralind, spurður hvað valdi þessum vinsældum. Það þarf að leika við Hatchimals og örva það svo það vaxi og dafni en það breytist úr unga og verður stærra og þroskaðra, ef hægt er nota slík hugtök yfir dót.  

Sigurður Þorgeir segir að enginn hafi búist við þessum vinsældum, ekki einu sinni framleiðandinn. Kanadíski dótaframleiðandinn Spin Master framleiðir dótið. Í fjölmörgum erlendum fréttum hafa talsmenn fyrirtækisins greint frá því að þeir anni ekki eftirspurn og leggi nótt við nýtan dag við að setja eggin saman. Í lok nóvember var þegar ljóst hvert stefndi. Hatchimals hefur verið nefnt sem dót ársins 2016.

Sjá meðal annars fréttir á fréttavefsíðunum ctvnews og the record.   

Verslunarstjórinn reiknar ekki með að fá fleiri Hatchimals fyrir jólin. Það mun þó skýrast á þriðjudaginn í vikunni. ToysRUs á Íslandi setti færslu inn á Facebook-síðu sína á föstudagskvöldið síðasta um að eggin væru komin í verslunina um leið og búðir opnuðu á laugardagmorgni. Klukkutíma síðar voru eggin búin. Þau kostuðu tæplega 11 þúsund krónur stykkið. Þegar hringt er í verslunina er greint frá því í símsvara að Hatchimals séu uppseld. 

Hér er Facebook-síða ToysRUs á Íslandi. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK