Kaupa ISS á Íslandi

ISS býður m.a. upp á ræstinga- og veitingaþjónustu, auk annarrar …
ISS býður m.a. upp á ræstinga- og veitingaþjónustu, auk annarrar fasteignaumsýslu. RAX/mbl.is

Hópur innlendra og erlendra fjárfesta hefur fest kaup á þjónustufyrirtækinu ISS Ísland ásamt stjórnendum fyrirtækisins, sem verið hefur í eigu  alþjóðafyrirtækisins ISS World Services A/S. Samningurinn er háður hefðbundnum fyrirvörum, en bæði kaupendur og seljandi eru bjartsýnir á að eigendaskiptin gangi að fullu í gegn fyrir árslok, að því er segir í fréttatilkynningu. Kaupverðið er enn fremur sagt vera trúnaðarmál.

Fjárfestahópurinn samanstendur af erlendum aðilum með mikla reynslu af rekstri og stjórnun þjónustufyrirtækja, innlendum fjárfestum og núverandi stjórnendum ISS Ísland. Meðal fjárfestanna er Patrick de Muynck, fyrrum stjórnandi hjá franska veitingafélaginu Elior Group, og sænska sjóðastýringarfélgsins EQT sem m.a. átti ISS og SSP Group um árabil. Elior, SSP og ISS eru meðal stærstu fyrirtækja heims á sviði fasteigna- og veitingaþjónustu.

Á meðal fjárfestanna eru að auki Peter Nilsson, fyrrum forstjóri Duni og Sanitec, Einar Sveinsson og Benedikt Sveinsson.

„ISS Ísland hefur átt farsælt samstarf við ISS World services frá upphafi. Fjárfesting nýrra eigenda er viðurkenning á þeim árangri og uppbyggingu sem unnið hefur verið að undanfarin ár,“ er haft eftir Guðmundi Guðmundssyni, forstjóra ISS Ísland, í fréttatilkynningunni. „Fyrirtækið verður rekið áfram í óbreyttri mynd með sama starfsfólki, en það hefur verið lykillinn á bak við þennan frábæra árangur.“

ISS World Services A/S er leiðandi í fasteignaumsjón í heiminum og er með starfsemi í 53 löndum.

ISS hóf starfsemi á Íslandi árið 2000, þegar fyrirtækið keypti ræstingadeild Securitas. Á síðastliðnum 16 árum hefur fyrirtækið vaxið og aukið þjónustuframboð sitt verulega. Þjónusta fyrirtækisins felst í ræstingum, veitingaþjónustu, annarri fasteignaumsýslu og samhæfðum þjónustulausnum. Fyrirtækið mun starfa áfram undir merkjum ISS næstu tvö árin á grundvelli samstarfssamning við ISS World Services A/S.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK