Ísland orðið „fórnarlamb eigin velgengni“

Erlendir ferðamenn við Seljalandsfoss fyrr í mánuðinum.
Erlendir ferðamenn við Seljalandsfoss fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland er orðið „fórnarlamb eigin velgengni“ og landið ræður ekki við allan þann fjölda erlendra ferðamanna sem þangað koma. Þetta kemur fram í grein The Independent þar sem farið er yfir ferðamannastaði sem hafa vaxið of hratt.

Í greininni er vitnað í Justin Francis, framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Responsible Travel, sem segir að Ísland hafi endurbyggt efnahag landsins eftir hrunið 2008 með ferðaþjónustunni. „En stundum vex ferðaiðnaðurinn hraðar en innviðirnir,“ segir Francis. „Það fóru 250.000 ferðamenn til Íslands árið 2009 en 1,6 milljónir á síðasta ári. Landið þolir ekki þennan fjölda.“

Er jafnframt haft eftir Francis að á háannatíma sé erfitt að komast Gullna hringinn vegna fjölda ferðamanna. Í grein The Independent er frekar mælt með því fara út fyrir kassann. „Þú þekkir ekki muninn á frægasta fossi Íslands og næstfrægasta, þeir eru jafnmagnaðir,“ segir Francis. „En þú nýtur þeirra staða sem eru minna þekktir betur því þar er meiri friður.“

Í greininni er einnig mælt með því að þeir sem hafi áhuga á Íslandi fari frekar til Svalbarða og kallar Francis eyjuna „stórbrotna“. Þá spáir hann auknum vinsældum Grænlands sem áfangastaðar ferðamanna.

Frá Feneyjum.
Frá Feneyjum. AFP

Feneyjar orðnar „innantómar“

Í greininni er fjallað um svokallað Butler-módel, þ.e. þegar áfangastaðir eru „uppgötvaðir“, ferðamannastraumur vex gríðarlega og nær hámarki. Eftir það er leiðin yfirleitt niður á við, ofsetnar strendur, langar raðir og óhlýðnir ferðamenn eyðileggja andrúmsloftið sem eitt sinn var til staðar.

Fleiri staðir en Ísland eru til umfjöllunar í grein The Indepenent. Rætt er um Feneyjar sem eru orðnar „innantómar“ af ferðaiðnaðinum. „Þær fóru úr alvörustað í skemmtigarð,“ er haft eftir Francis. Einnig er rætt um Barcelona og segir Francis að ferðamenn séu að grafa undan kennimerki borgarinnar. Frekar er mælt með spænsku sveitunum fyrir fríið heldur en Barcelona.

Annar áfangastaður á listanum er Kúba en þar hefur verið töluverð aukning á ferðamönnum síðustu ár og er það mat Francis að innviðirnir séu ekki að höndla álagið. Hann mælir frekar með Belize eða Costa Rica og segir reyndar „alla Mið-Ameríku betri en Karabíska hafið“ þegar kemur að áfangastöðum fyrir ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK