Hrun í komu ferðamanna ólíklegt en ekki útilokað

Með lengri ferðamannatíma og betri nýtingu verða störfin í mun …
Með lengri ferðamannatíma og betri nýtingu verða störfin í mun meira mæli heilsársstörf sem skapar tækifæri til að laða að fólk með meiri menntun og reynslu í greininni. En ítrekað er hversu ólíklegt það er að sú ævintýralega aukning sem hefur verið í greininni undanfarin ár haldi áfram og útlit er fyrir að vöxturinn staðni í um 7-8%. mbl.is/Styrmir Kári

80% þeirra ferðamanna sem spurðir voru af Ferðamálastofu hversu líklegt það væri að þeir myndu heimsækja Ísland aftur töldu það mjög eða frekar líklegt. Það er þó ekki sjálfgefið að þessi þróun haldi áfram og er margt sem þarf að huga að. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um stöðu og þróun ferðaþjónustunnar sem birt var í gær.

Þar kemur m.a. fram að langtímastefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi sé nauðsynleg með tilliti til uppbyggingar innviða, markaðssetningar landsins og sköpunar verðmætra starfa í greininni.

„Tækifæri Íslands sem ferðamannaáfangastaðar eru mjög mikil. Landið býr yfir einstakri náttúrufegurð, sögu, menningu og auðlindum. Atvinnugreinin er tiltölulega ung hér á landi en er á skömmum tíma orðin mikilvægasta atvinnugreinin og uppspretta hagvaxtar og sköpunar nýrra starfa. Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvægur þáttur í byggðaþróun og ef vöxtur greinarinnar heldur áfram eins og spár gera ráð fyrir mun það hafa veruleg áhrif á byggð og samfélög víða um land,“ segir í samantekt stofnunarinnar.

Langtímastefnumótun nauðsynleg

Þá er bent á að aðkoma stjórnvalda að ferðaþjónustugreininni skiptir miklu máli fyrir þróun greinarinnar og afkomu. Nauðsynlegt er að fara í langtímastefnumótun af hálfu ríkisins með aðkomu sveitarstjórna og hagsmunaaðila í greininni. Móta þarf lagaumhverfi greinarinnar með það að markmiði að hvetja til vöruþróunar, bættrar afkomu og markaðssetningar, ásamt því að setja kröfur á þá aðila sem starfa innan greinarinnar um gæði, fagmennsku og ábyrgð.

„Tækifæri til menningartengdrar ferðaþjónustu eru mikil og söfn sem byggja á sögu landsins hafa risið víða en uppbygging þeirra er kostnaðarsöm og rekstur þeirra margra þungur vegna þess hversu ferðamannatíminn er stuttur.“

Er það mat Byggðastofnunar að mikið tækifæri felist í því að lengja ferðamannatímann en með minni árstíðasveiflu nýtast fjármagn, tæki og vinnuafl betur yfir allt árið. „Þetta er jafnframt mesta áskorunin sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki standa frammi fyrir nú, einkum utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í samantektinni.

Er bent á að arðsemi fyrirtækja hafi ekki fylgt þróun fjölgunar ferðamanna og miklar árstíðasveiflur einkenni greinina. „En alls kyns tækifæri eru til að vinna gegn árstíðasveiflunum líkt og frekari þróun á vetrarferðum og -þjónustu.“

„Tækifæri Íslands sem ferðamannaáfangastaðar eru mjög mikil. Landið býr yfir …
„Tækifæri Íslands sem ferðamannaáfangastaðar eru mjög mikil. Landið býr yfir einstakri náttúrufegurð, sögu, menningu og auðlindum." mbl.is/Eggert Jóhannesson

Má bæta gæði með aukinni menntun

Einnig er bent á að mikil tækifæri felist í að auka gæði þjónustu innan ferðaþjónustunnar, bæði hvað varðar þjónustu og aðbúnað gesta. Gæði þjónustunnar má bæta með betur menntuðu starfsfólki innan greinarinnar. Bæði hvað varðar bein störf í ferðaþjónustu og aukningu í tungumálakennslu innan almenna skólakerfisins. Það er í höndum stjórnvalda að setja reglur um hollustu og aðbúnað á þeim stöðum sem selja veitingar og gistingu.

„Eftirlit með slíkum reglum þarf að vera virkt og fylgja úrræði sem hægt er að grípa til til að tryggja góðan aðbúnað og hollustu á slíkum stöðum,“ segir í samantektinni og bent á að nýlega hafi verið sett á laggirnar gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, Vakinn. Á heimasíðu verkefnisins segir; „Markmið með Vakanum er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Vakinn er verkfæri þátttakenda til að auka gæði og öryggi, veitir þeim leiðsögn og leggur til margvísleg hjálpargögn og gátlista sem má nýta til að bæta rekstur og starfshætti í fyrirtækinu.“ Kerfi sem þetta getur hjálpað ferðaþjónustunni að vaxa og spornað við því að við missum tökin á umhverfis- og gæðamálum ferðaþjónustunnar.“

Þá er tekið fram að sett hafi verið á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar. Markmið með þeirri vinnu er að samhæfa aðgerðir og fylgja eftir vegvísi í ferðamálum og gerð hefur verið áætlun fyrir það verkefni til ársins 2020.

Mönnun starfa ein mesta áskorunin

Er vitnað í greiningu Arion banka á ferðaþjónustunni frá september 2015 en þar kemur fram að skortur verði á reyndu og/eða menntuðu starfsfólki í ferðaþjónustu á næstu árum og því verður mönnun starfa í greininni ein mesta áskorunin í ferðaþjónustu á Íslandi á næstu árum. Þá er vitnað í skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka í skýrslu um ferðaþjónustu á Íslandi frá febrúar á þessu ári, voru um 10.800 manns starfandi í ferðaþjónustu árið 2008 sem er um 6% starfandi. Árið 2015 voru störfin orðin 17.100 eða 9,3%.

Ekki eru þá talin með störf í ferðaþjónustutengdum greinum, s.s. bílaleigum, smásölu, afþreyingu, menningu, verslun og þjónustu. Í skýrslu Íslenskra verðbréfa frá september 2015 er áætlað að fjölgun starfa í ferðaþjónustu verði rúm 7.000 fram til ársins 2020, þar af um 3.000 störf utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness. Spá greiningardeildar Arion banka frá sama tíma gerir ráð fyrir að beinum störfum í ferðaþjónustu fjölgi um 6.500 fram til ársins 2018 en að í heildina verði ný störf í greininni um 10.000. Spá bankans gerir ráð fyrir að aukning mannfjölda á vinnualdri verði á sama tíma um 8.000 manns.

„Ljóst er að ef þessar spár ganga eftir verður mikill skortur á vinnuafli til starfa í ferðaþjónustu hér á landi. Aðsókn í greinar tengdar ferðaþjónustu hefur þó aukist lítillega á síðustu árum samkvæmt greiningu bankans en skólar sem kenna fög tengd ferðaþjónustu geta tekið við fleiri nemendum,“ segir í samantekt Byggðastofnunar.

„Með aukinni menntun skapast tækifæri fyrir betri gæði þjónustunnar, betri nýtingu og framleiðni sem aftur skapar tækifæri fyrir fyrirtæki innan greinarinnar til að greiða hærri laun og auka verðmætasköpun. Störf innan ferðaþjónustunnar eru oft og tíðum hlutastörf og tímabundin yfir háannatímann, sérstaklega í landsbyggðunum.“

Byggðastofnun bendir á að mikil tækifæri felist í að auka …
Byggðastofnun bendir á að mikil tækifæri felist í að auka gæði þjónustu innan ferðaþjónustunnar, bæði hvað varðar þjónustu og aðbúnað gesta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margt getur ógnað stöðu Íslands

Með lengri ferðamannatíma og betri nýtingu verða störfin í mun meira mæli heilsársstörf sem skapar tækifæri til að laða að fólk með meiri menntun og reynslu í greininni. En ítrekað er hversu ólíklegt það er að sú ævintýralega aukning sem hefur verið í greininni undanfarin ár haldi áfram og útlit er fyrir að vöxturinn staðni í um 7-8%.

„Hvenær það gerist er óvíst en árið í ár virðist ætla að vera í takti við síðustu ár. Hrun í komu ferðamanna er talið ólíklegt en alls ekki útilokað,“ segir í samantektinni.

Bent er á mat Seðlabanka Íslands sem er á þá leið að ef ferðamönnum fækkar um 40%, þ.e. að þeir verði um það bil jafnmargir og árið 2012, muni það hafa verulega slæm áhrif á efnahagslíf landsins.

„Margt getur ógnað stöðu Íslands sem ferðamannalands og þar má til dæmis nefna mikla styrkingu raungengis, hækkun fluggjalda, fækkun flugferða og versandi efnahagsástand erlendis,“ segir í samantektinni. Ef litið er til þjóða þar sem ferðamannastraumurinn hefur minnkað mikið eru öryggisógnir eða pólitískur óstöðugleiki oft ástæðan og bent er á Tyrkland sem dæmi. Þá geta náttúruhamfarir einnig sett strik í reikninginn „eða Ísland einfaldlega dottið úr tísku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK