„Hér er góður andi og gott fólk“

Lilja Björk er nýr bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk er nýr bankastjóri Landsbankans. Ljósmynd/Aðsend

„Ég þekki vel bankarekstur og flest svið bankastarfsemi þannig ég veit að hluta til að hverju ég geng. Þetta er auðvitað umfangsmikið og mikilvægt starf,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, nýráðinn bankastjóri Landsbankans, í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var um ráðningu Lilju í gær en hún hefur störf 15. mars næstkomandi.

Eins og fram kom í tilkynningu bankans í gær hefur Lilja starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarmaður í fyrirtækjum. Á árunum 2008 til 2016 stýrði Lilja starfsemi, eignaumsýslu og endurheimt eigna gamla Landsbanka Íslands, LBI ehf., í London. Á árunum 2005 til 2008 var hún sérfræðingur og síðar framkvæmdastjóri hjá Landsbanka Íslands hf. í London og bar m.a. ábyrgð á daglegum rekstri og uppbyggingu stoðdeilda, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Áður vann Lilja hjá ráðgjafarfyrirtækinu Marsh & McLennan frá 2003 til 2005 og vann m.a. verkefni fyrir Ford-bílaframleiðandann, sem sérfræðingur í gerð áætlana og áhættulíkana fyrir vátryggingarsvið og fjárstýringu.

Hún útskrifaðist sem véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1998 og lauk meistaraprófi í fjármálaverkfræði frá Michigan-háskóla í Ann Arbor í Bandaríkjunum árið 2003.

Fyrst á dagskrá að kynnast fólkinu

Lilja hefur varið deginum í að skoða starfsemi bankans í höfuðstöðvunum í Austurstræti. Þegar hún hefur störf í mars stefnir hún á að hitta sem flest starfsfólk. „Mér líst gríðarlega vel á þetta, ég hef séð nokkur kunnugleg andlit hérna inn á milli. Hér er góður andi og gott fólk sem vill gera mjög vel.“

Hún segir að sitt fyrsta verk sem bankastjóri verði að kynnast fólkinu og málefnum bankans. „Ég ætla ekki að ganga hérna inn með miklar stefnubreytingar í huga. Ég ætla að kynna mér hvernig málin standa þegar ég byrja og láta þar við sitja eins og er.“

Í lok nóvember komust bankaráð Landsbankans og Steinþór Pálsson bankastjóri að samkomulagi um að hann léti af störfum hjá bankanum en Steinþór hafði þá verið bankastjóri frá 1. júní 2010. Hann var töluvert gagnrýndur fyrir söluna á Borgun á síðasta ári en m.a. setti ríkisendurskoðun út á bankann fyrir að hafa ekki aflað sér nægilegra upplýsinga um greiðslukortafyrirtækið Borgun, m.a. um aðild fyrirtækisins að Visa Europe Ltd.

Lilja segir málið komið í tiltekið ferli. Þar af leiðandi sér hún ekki fyrir sér að tjá sig sérstaklega um það mál í fjölmiðlum.

Spurð um eignarhald ríkisins á bankanum segist Lilja ekki hafa sérstaka skoðun á því. „Ekki aðra en að ég mun stuðla að því að bankinn verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt svo það komi sem best út fyrir eigendur og viðskiptavini.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK