Kortavelta ferðamanna jókst um 50%

iðir eins og hótelgisting, gjafa- og minjagripaverslun, veitingaþjónusta og bensín …
iðir eins og hótelgisting, gjafa- og minjagripaverslun, veitingaþjónusta og bensín voru allir að aukast nokkurn vegin í takt við fjölgun erlendra ferðamanna, eða á bilinu 39 til 44%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kortavelta erlendra ferðamanna nam 232 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 50% milli ára á verðlagi hvors árs. Greint er frá þessu í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að hluta af þessari aukningu megi rekja til aukinna umsvifa WOW air en alls jókst kortavelta í farþegaflutningum með flugi um 136%. Ef reynt er að leggja mat á þróun í neyslu erlendra ferðamanna yfir tíma er því rétt að horfa framhjá þeim lið. Þá sést að kortavelta jókst um rúm 40% milli ára.

„Það er í mjög góðu samræmi við fjölgun ferðamanna, en þeim fjölgaði einnig um rúm 40%,“ segir í Hagsjá.

Þó jókst neysla á hvern ferðamann aðeins um 0,1% og bent er á í Hagsjá að á síðustu árum hafi verið fremur litlar breytingar í neyslu á hvern ferðamenn í krónum talið. Þannig varð 2,9% aukning árið 2015 sem kom í kjölfar 4,7% samdráttar árið 2014. Heilt yfir hefur meðalkortavelta erlendra ferðamanna dregist saman um alls 1,2% milli áranna 2012 og 2016. Gengi krónunnar styrktist umtalsvert á síðasta ári gagnvart flestum gjaldmiðlum og ferðamenn eru því að auka nokkuð neyslu sína hér á landi mælt í þeirra eigin gjaldmiðlum.

Þriðjungur í ferðalög og gistingu

Þá kemur fram að stærstu útgjaldaliður ferðamanna er gistiþjónusta en um 18% af kortaveltunni liggur þar. Síðan koma farþegaflutningar með 17% en um 95% þeirra útgjalda liggja í farþegaflutningum með flugi. Rúmur þriðjungur kortaveltunnar liggur því í gistingu og ferðalögum til og frá landinu. Um 13% kortaveltunnar er verslun en af þeirri veltu liggur mest í dagvöru, því næst fataverslun og svo annars vegar gjafa- og minjagripaverslun og hins vegar tollfrjálsri verslun. Tæp 11% útgjalda ferðamanna fara í veitingaþjónustu og 7,7% í bílaleigur. Úttektir á reiðufé eru síðan 6,7% en erfitt er að ráða hvernig þau útgjöld dreifast á útgjaldaflokka.

Bent er á að talsverður tími getur liðið frá því að greitt er fyrir flugferð með greiðslukorti þar til ferðalagið á sér stað og því getur þessi liður skekkt samanburð milli ára þegar greina á neyslu ferðamanna á ákveðnu tímabili.

Mesta aukningin á síðasta ári var í farþegaflutningum með flugi, …
Mesta aukningin á síðasta ári var í farþegaflutningum með flugi, eða 136%, en sú aukning skýrist að miklu leyti af aukningu sætaframboðs hjá WOW air. mbl.is/Golli

Úttekt á reiðufé á stöðugri niðurleið

Neyslumynstur ferðamanna tekur stöðugum breytingum yfir tíma og má m.a. rekja það til þess að samsetning ferðamanna eftir þjóðernum tekur stöðugum breytingum. Á síðasta ári voru ferðamenn því ýmist að auka neyslu sína eða draga úr henni með ýmsum útgjaldaliðum. Mesta aukningin á síðasta ári var í farþegaflutningum með flugi, eða 136%, en sú aukning skýrist að miklu leyti af aukningu sætaframboðs hjá WOW air.

Þá jókst tollfrjáls verslun jókst um 63% og tónleikar og hvers kyns aðrir viðburðir jukust um 61%. Liðir eins og hótelgisting, gjafa- og minjagripaverslun, veitingaþjónusta og bensín voru allir að aukast nokkurn vegin í takt við fjölgun erlendra ferðamanna, eða á bilinu 39 til 44%. Þeir liðir sem jukust minnst var úttekt á reiðufé en hlutdeild þess hefur stöðugt leitað niður á við á síðustu árum.

„Það bendir til þess að víðar sé hægt að greiða fyrir ferðaþjónustu með greiðslukortum en áður, auk þess sem það gefur einnig vísbendingu um að stærri hluti af tekjum ferðaþjónustunnar sé gefinn upp til skatts en áður,“ segir í Hagsjá. Fataverslun jókst einungis um 12,9% milli ára og var því hver ferðamaður að eyða umtalsvert minna í fatnað hér á landi á síðasta ári en árið áður. Útgjöld hvers ferðamanns til farþegaflutninga á sjó og landi drógust saman en heildarvelta í farþegaflutningum á sjó jókst um 31% og um 36% í farþegaflutningum á landi.

„Til samanburðar jókst erlend kortavelta hjá bílaleigum um 49% sem bendir til þess að erlendir ferðamenn kunni betur við að ráða sér sjálfir fremur en að ferðast með öðrum,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK