Bjórsala dregst saman í Rússlandi

AFP

Bjórframleiðandinn Heineken hefur dregið úr starfsemi sinni í Rússlandi og leitar nú frekar á markaði í Brasilíu, Suður-Afríku, Mexíkó og Bretlandi. Að sögn framkvæmdastjórans minnkaði salan á Heineken um meira en 10% á síðasta ári í Rússlandi. „Við erum búin að upplifa mjög erfið ár í Rússlandi,“ hefur CNN eftir Jean-Francois van Boxmeer, framkvæmdastjóra Heineken. „Þetta er markaður á niðurleið.“

Þá hefur bjórframleiðandinn Carlsberg, sem yfirleitt fær um 16% af árshagnaði sínum frá Rússlandi, einnig greint frá sölutölum á niðurleið í landinu.

Samkvæmt frétt CNN hefur slæmt efnahagsástand í landinu haft áhrif á bjórsöluna sem og aðgerðir stjórnvalda til þess að hindra ofneyslu áfengis. Stjórnvöld hafa bæði hækkað skatta á áfengi og bannað auglýsingar. Í janúar hófust aðgerðir þar sem stærð plastbjórflaskna er takmörkuð við 1,5 lítra og þá eru uppi áætlanir um að banna alveg áfengi í plastumbúðum í júlí.

Bjór í plastflöskum, sem er ódýrara að framleiða en glerflöskur og áldósir, er mjög vinsæl vara á rússneska áfengismarkaðinum. Samtök rússneskra bjórframleiðanda telja að 42% af öllum bjór í Rússlandi sé seldur í plastflöskum.

Bjórframleiðendur hafa mótmælt banninu og telur Carlsberg að bjórmarkaðurinn í Rússlandi minnki um 5% vegna aðgerðanna. Hærri skattar og bágt ástand efnahags landsins hefur í sameiningu ýtt undir neyslu ólöglegs áfengis í Rússlandi.

Til að mynda hefur Vladimir Pútín, forseti Rússlands, fyrirskipað ríkisstjórn sinni að herða lög sem varða ólöglegt áfengi eftir að tugir manna létu lífið í Síberíu. Fólkið hafði drukkið einhvers konar jurtameðal sem innihélt metanól. Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar misnotar einn af hverjum þremur rússneskum karlmönnum áfengi og einn af hverjum sex er háður áfengi. Þá var greint frá því árið 2014 að fjórðungur rússneskra karlmanna deyr 55 ára eða yngri, oftast vegna mikillar áfengisneyslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK