Geri jafnréttismat á um 40% frumvarpa

Samkvæmt áætluninni skal hvert ráðuneyti framkvæma jafnréttismat á frumvörpum sem …
Samkvæmt áætluninni skal hvert ráðuneyti framkvæma jafnréttismat á frumvörpum sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna. mbl.is/Eggert

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í ríkisstjórn í síðustu viku stöðu innleiðingar kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Á árinu er er lögð áhersla á að gert verði jafnréttismat á lagafrumvörpum í því skyni að jafna stöðu kynjanna. Er stefnt að því að á þessu ári verði slíkt mat gert á um 40% frumvarpa sem ráðherrar leggja fram. Verður sjónum beint sérstaklega að málum sem augljóslega hafa mikil áhrif á kynin.

Greint er frá þessu á vef ráðuneytisins.

Þar kemur fram að innleiðingaráætlunin sem nú er unnið eftir var samþykkt í ríkisstjórn 19. júní 2015 og gildir til ársins 2019 og hefur sérstök verkefnisstjórn heildarumsjón með innleiðingu, framvindu og eftirliti með framkvæmd. Fulltrúar allra ráðuneyta sitja í verkefnisstjórninni. 

Helsta markmið núgildandi innleiðingaráætlunar er að samþætta kynjaða fjárlagagerð við stefnumótun og ákvarðanatöku. Það verður m.a. gert með því að horfa til kynjasjónarmiða við gerð lagafrumvarpa og við ráðstöfun opinbers fjár. Jafnréttismat á lagafrumvörpum þarf að gera hvort heldur sem áhrif þess koma fram á tekju- eða útgjaldahlið frumvarpsins enda hefur öflun opinbers fjár ekki síður áhrif en ráðstöfun þess. Sem dæmi hefur uppbygging skattkerfis mismunandi áhrif á kynin að mörgu leyti þrátt fyrir að löggjöfin sem slík miðist við að sama gildi fyrir kynin.

Samkvæmt áætluninni skal hvert ráðuneyti framkvæma jafnréttismat á frumvörpum sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna. Innan allra ráðuneyta er sömuleiðis unnið að því að greina ákveðið málefnasvið eða málaflokk út frá kynjasjónarmiðum og úrbætur lagðar til ef þörf á. Kyngreind gögn eru ein af lykilforsendum árangursríkrar innleiðingar og því er lagt kapp á að bæta aðgengi að þeim.

Innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar hófst hér á landi árið 2009. Leiðarljós innleiðingar kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar er að með kynjaðri fjárlagagerð haldist réttlæti og sanngirni í hendur við efnahagslega velferð. Ákvarðanir hins opinbera hafa áhrif á val og kosti einstaklinga svo sem varðandi búsetu, nám, atvinnuþátttöku og ótalmargt fleira. Í ljósi þess að kynin búa enn við ólíkar aðstæður í efnahagslegum, félagslegum og pólitískum skilningi er ávinningur af kynjaðri fjárlagagerð margvíslegur þótt megintilgangur aðferðafræðinnar sé aukið jafnrétti. Greining kynjaáhrifa stuðlar að upplýstari ákvarðanatöku sem getur leitt til betri nýtingar á opinberu fé og bættrar efnahagsstjórnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK