Fleiri auðkýfingar flytja til Ástralíu

Fólk á gangi í Sydney.
Fólk á gangi í Sydney. AFP

Um 11.000 auðkýfingar fluttu til Ástralíu á síðasta ári samkvæmt nýrri skýrslu New World Wealth. Það er aukning milli ára en árið 2015 fluttu 8.000 auðkýfingar til landsins. Samkvæmt frétt CNN hafa Bretland og Bandaríkin lengi trónað á listanum yfir vinsæla staði fyrir ríka einstaklinga að búa en auðkýfingum í Ástralíu hefur fjölgað síðustu ár, sérstaklega frá Indlandi og Kína.

Að sögn New World Wealth er það veðrið í Ástralíu sem og gott heilbrigðiskerfi sem heillar milljónamæringa þangað. Þá er landið talið öruggt og gott að ala upp börn þar. Einnig er tekið fram að Ástralía er landfræðilega aðskilin deilum í Mið-Austurlöndum og flóttamannavandanum í Evrópu.

Þá skiptir landfræðileg staðsetning Ástralíu einnig máli þegar kemur að viðskiptum og er landið sagt góður staður fyrir viðskiptasambönd í Kína, Suður-Kóreu, Singapúr og á Indlandi.

Bandaríkin eru þó enn gríðarlega vinsæll áfangastaður fyrir auðkýfinga en á síðasta ári fluttu 10.000 erlendir milljónamæringar þangað. „Við búumst ekki við því að ný ríkisstjórn í Bandaríkjunum hafi mikil áhrif. Við gerum ráð fyrir því að stór hópur auðkýfinga muni flytja þangað á árinu,“ er haft eftir Andrew Amoils hjá New World Wealth.

Kanada er einnig vinsæll staður fyrir þá sem eiga mikla peninga en 8.000 milljónamæringar fluttu þangað á síðasta ári. Ríkir Kínverjar flytja í auknum mæli til Vancouver á meðan Evrópubúarnir fara frekar til Toronto og Montréal.

Á sama tíma hefur Frakkland fundið fyrir brottflutningi auðkýfinga úr landinu. Rúmlega 12.000 milljónamæringar fluttu frá Frakklandi á síðasta ári og þá hafa 60.000 flutt frá landinu frá árinu 2000.

Silalegur efnahagur landsins og nýlegar hryðjuverkaárásir gætu haft áhrif að mati New World Wealth. Segir fyrirtækið jafnframt hluti eins og glæpatíðni og skatta meðal þess sem fær milljónamæringa til þess að flytja frá heimalöndum sínum. Getur það haft neikvæð áhrif á landið sem þeir flytja frá því þeir taka með sér miklar fjárhæðir sem geta skilað sér í áhrifum á gjaldmiðil landsins, verðbréfamarkað og fasteignamarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK