Afkoman svipuð milli ára

Íslandsbanki
Íslandsbanki mbl.is/Hjörtur

Hagnaður Íslandsbanka nam 20,2 milljörðum króna á síðasta ári sem er svipaður hagnaður og árið 2015 en þá nam hann 20,6 milljörðum króna.

Rekstrartekjur bankans voru 52,7 milljarðar króna í fyrra samanborið við 44,7 milljarða 2015. Rekstrargjöld námu 31 milljarði en voru 27,7 milljarðar árið á undan.

Í ársreikningi kemur fram að á árinu 2015 var eignarhlutur samstæðunnar í Visa Europe flokkaður sem fjáreign til sölu og endurmetinn til gangvirðis í gegnum aðra heildarafkomu á 5.445 milljónir króna. Þann 21. júní 2016 seldi samstæðan hlut sinn í Visa Europe til Visa Inc. og fékk í skiptum handbært fé og annað endurgjald sem metið var á 6.186 milljónir króna. Endurgjaldið samanstóð af fyrirframgreiddu reiðufé að fjárhæð 4.943 milljónir króna, forgangshlutabréfum í C-flokki í Visa Inc. sem metin voru á 876 milljónir króna og kröfu að fjárhæð 367 milljónum króna sem verður greidd 21. júní 2019.

Endanleg fjárhæð forgangshlutabréfanna kann að lækka vegna niðurstöðu lagalegra álitamála sem tengjast Visa Europe. Þegar gengið var frá sölu hlutabréfanna í Visa Europe, var virðisaukning árið 2016 að fjárhæð 741 milljón króna færð í gegnum aðra heildarafkomu og heildarvirðisaukning árin 2015 og 2016 að fjárhæð 6.186 milljónir króna endurflokkuð í rekstrarreikning. Forgangshlutabréfin í Visa Inc. eru flokkuð sem eign til sölu og metin á 819 milljónir króna 31. desember 2016.

Birna Einarsdóttir bankastjóri fékk í fyrra 49,1 milljón króna í laun og 9,1 milljón króna í frammistöðutengdar launagreiðslur. Átta framkvæmdastjórar bankans fengu alls 232,3 milljónir króna í laun í fyrra og 39,8 milljónir króna í frammistöðutengdar greiðslur. 

Árið 2015 námu laun Birnu 43,7 milljónum króna og frammistöðutengdar greiðslur 7,2 milljónum króna. Framkvæmdastjórarnir átta fengu það ár 221,3 milljónir króna í laun og 29,1 milljón í árangurstengdar greiðslur. 

Stjórnarformaður Íslandsbanka, Friðrik Sophusson, fékk 9,3 milljónir króna fyrir að stýra stjórn bankans en aðrir stjórnarmenn fengu frá 4,4 milljónum króna upp í 6,7 milljónir króna fyrir störf sín í þágu bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK