Hjallastefnan byrjar með þvottaþjónustu

Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hjalla­stefn­unn­ar,
Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hjalla­stefn­unn­ar, mbl.is/Ómar Óskarsson

„Eftir að hafa kannað málið hjá foreldrum kom í ljós að margir sáu hag í því að geta komið með óhreina þvottinn á leikskólana og fengið hann hreinan nokkrum dögum síðar. Þetta er nákvæmlega sama hugmynd og matarþjónustan okkar, við erum einfaldlega að létta foreldrum ungra barna lífið.“

Þetta segir Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hjalla­stefn­unn­ar, í samtali við mbl.is en í næsta mánuði byrja Hjallastefnuleikskólar að bjóða upp á þvottaþjónustu.

Álag á barnafjölskyldur of mikið

Hjallastefnan fór af stað með verkefni undir yfirskriftinni Léttum lífið — nýtum ferðina um áramótin og fyrsta verkið var að bjóða foreldrum að kaupa mat á leikskólanum sem framleiddur er af Gló. Margrét Pála segir það hafa slegið í gegn og hafa létt líf margra fjölskyldna.

„Í mörg ár hef ég hamrað á því að álag á barnafjölskyldur er of mikið. Börnin gjalda og foreldrar eru of þreyttir. Hjallastefnan hefur ekki vald til þess að stytta vinnudaga, lengja fæðingarorlof eða hækka barnabætur. Því miður. En við getum þó lagt okkar af mörkum og höfum frá upphafi sett okkur það markmið, segir Margrét Pála.

Hjallastefnan hefur samið við Fatahreinsun Kópavogs um þvottaþjónustuna sem er hugsuð fyrir almennan heimilisþvott, rúmföt og skyrtur. Hver fjölskylda sem vill nýta sér þvottaþjónustuna fær sérstakan poka fyrir þvottinn og greitt er fyrir hvert kíló.

„Í mörg ár hef ég hamrað á því að álag …
„Í mörg ár hef ég hamrað á því að álag á barnafjölskyldur er of mikið. Börnin gjalda og foreldrar eru of þreyttir. Hjallastefnan hefur ekki vald til þess að stytta vinnudaga, lengja fæðingarorlof eða hækka barnabætur. Því miður. En við getum þó lagt okkar af mörkum og höfum frá upphafi sett okkur það markmið.“ segir Margrét Pála. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Allt þvegið heima en bíllinn settur á verkstæði

Margrét Pála segir marga á því að hefðbundin kvennastörf eigi aðeins að gerast inni á heimilunum og að ekki sé jafnrétti í þeirri hugsun.

„Þessi hefðbundnu karlaverk á heimilum, þ.e. gera við bílinn, skríða inn í skápa og laga pípulagnir og fleira, það eru ekki margir karlmenn sem sinna þessu sjálfir. En þegar það kemur að gömlu kvennastörfunum inni á heimilunum finnst okkur enn þá að þau eigi bara að gerast heima. Það er fínt ef allir eru með tíma og orku fyrir það en af hverju í ósköpunum, af því konur sjá nú yfirleitt um þvott, þarf að þvo allt heima og pressa og strauja á meðan bíllinn er settur á verkstæði?“ spyr Margrét Pála. „Þetta er hluti af misrétti heimsins.“

„Þetta er sama ástæðan og fyrir því að Hjallastefnan er kynjaskipt. Ég vildi óska þess að við lifðum í jafnréttissamfélagi þar sem hvorki stúlkur og drengir né karlar og konur gjalda fyrir kyn sitt. En þarna grípum við í einhverjar aðgerðir,“ segir hún.

Uppeldið mikilvægasta verkefnið

Spurð hvort Hjallastefnan hafi fengið einhver neikvæð viðbrögð við þessum aðgerðum segir Margrét Pála suma þeirrar skoðunar að með þessu sé uppeldishlutverk heimilanna tekið af fólki. „Það er að fara í búðina og fara að elda og læra að flokka þvottinn. Við getum stöðugt talað um líf sem við vildum hafa en við verðum að horfa á raunveruleikann,“ segir Margrét Pála.

„Það getur verið ekkert mál að sinna matseld og þvotti en það sem fjölskyldan má aldrei kvika frá eru samverustundir,“ segir hún. „Uppeldið er mikilvægasta verkefnið og ég óska þess að fólki setji hitt frekar til hliðar. Gæðatími barna er stundum bara það að vita af pabba og mömmu í rólegheitunum án allrar streitu. Ég er ekki að óska eftir að fólk fari að nota aukatímann sem sparast til að vera með skemmtiatriði. Það sem börn þurfa heima hjá sér er næði og tími með fjölskyldu sinni,“ segir Margrét Pála.

Vill vinna að styttingu vinnuvikunnar

Hún segir það ósk sína að barnafjölskyldur fái meiri frítíma saman en til þess þarf samfélagslega breytingu. „En ef allir bíða eftir þeim gerist ekki neitt. Við verðum öll að gera það sem við getum á okkar vettvangi til þess að ná fram samfélagsbreytingu og við teljum okkur leggja af mörkum með þessu,“ segir Margrét Pála og bætir við að hún og Hjallastefnan séu hvergi hætt.

„Ein af hugmyndum mínum er að vinna með foreldrum að styttingu vinnuvikunnar með því að bjóða foreldrum upp á lægra gjald með því að stytta opnunartímann, t.d. á föstudögum. Ég er búin að fylgjast með barnafjölskyldum í 40 ár og það er ekki verið að stytta almenna vinnudaginn, ef eitthvað þá er hann að lengjast. Þeir sem geta eru að reyna að lengja helgina með því að hætta fyrr á föstudögum. Nú er það draumur minn að ná samtali við foreldrana hjá okkur og sjá áhuga fólks á því að stytta opnunartímann.“

Margrét Pála og Sólveig Eiríksdóttir við undirritun samnings um samstarf …
Margrét Pála og Sólveig Eiríksdóttir við undirritun samnings um samstarf Hjallastefnunnar og Gló.

Leikskólinn ekki bara fyrir börnin

Spurð um viðbrögðin við matarpökkunum frá Gló segir hún þau hafa verið stórkostleg og farið fram úr öllum væntingum. „Foreldrar hjá okkur eru mjög kröfuharðir um mat og næringu barnanna og þess vegna er mikil ánægja með þetta verkefni.“ Hún segir bæði matinn og þvottinn hjá Hjallastefnunni á hagstæðum kjörum. „Það ætlar sér enginn að græða á þessu. Fyrirtækin sem vinna með okkur, bæði Gló og Þvottahús Kópavogs, sjá þetta sem merka tilraun til þess að veita betri þjónustu.“

Hún segir ákveðna vitundarvakningu hafa orðið í samfélaginu um hlutverk leikskólans.

„Ég er svo óendanlega glöð að vera komin á þann stað þar sem við hugsum leikskólann ekki bara fyrir börn heldur alla fjölskylduna,“ segir Margrét Pála. „Þannig þarf þetta að vera, við þurfum við að vera til staðar ekki bara fyrir barnið heldur fjölskylduna alla í heild.“

Matarþjónustan hefur slegið í gegn að sögn Margrétar Pálu.
Matarþjónustan hefur slegið í gegn að sögn Margrétar Pálu.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK