Tommi á Búllunni vill í stjórn Icelandair Group

"Ég þekki auðvitað ekkert annað en ferðamannaiðnaðinn og hótel- og veitingarekstur,“ segir Tommi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Tómas A. Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni hefur boðið sig fram í stjórn Icelandair Group sem kosin verður á aðalfundi á föstudaginn. Sex eru í framboði en samkvæmt samþykktum félagsins skal kjósa fimm í stjórn.

„Nei, þetta er algjörlega að mínu eigin frumkvæði,“ segir Tómas aðspurður hvort hann bjóði sig fram fyrir ákveðna hluthafa í félaginu. „Ég hef áhuga á Icelandair Group, ég vann þarna sjálfur í mörg ár, hjá Loftleiðum. Ég þekki auðvitað ekkert annað en  ferðamannaiðnaðinn og hótel- og veitingarekstur.“

Tómas segist hafa hugsað þetta framboð lengi eða í um tvö ár. Hann segir lítið vita um hvernig hann haldi að kosningin fari og segir hann að það verði bara að koma í ljós. „Það er fullt af góðu fólki þarna í framboði. Ég er svolítið óþekkt stærð sem maður í stjórn stórs fyrirtækis þó ég sé þekktur sem eitthvað annað.“

„Ég hef allavega skoðun og ferðast mikið,“ segir Tómas spurður hvort hann haldi að hann geti lagt eitthvað af mörkum í stjórninni. „Þetta er auðvitað spurning um að veita góða þjónustu og selja farmiða.“

Hin fimm sem gefa kost á sér eru Ásthild­ur Mar­grét Ot­hars­dótt­ir, Georg Lúðvíks­son, Katrín Olga Jó­hann­es­dótt­ir, Ómar Bene­dikts­son og Úlfar Stein­dórs­son. Þau eru öll þegar í stjórn fyrir utan Ómar og Tómas.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag sækist Sigurður Helgason, núverandi stjórnarformaður og fyrrverandi forstjóri Icelandair ekki eftir endurkjöri og Magnús Magnússon ekki heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK