Viðsnúningur í rekstri Íslandspósts

Aukning sendinga erlendis frá var um 43% á milli ára …
Aukning sendinga erlendis frá var um 43% á milli ára og innlent pakkamagn jókst um 24% á sama tímabili.

Íslandspóstur hagnaðist um 121 milljón króna á síðasta ári samanborið við 118 milljóna króna tap árið 2015. Rekstartekjurnar námu rúmum 8.524 milljónum króna sem er 12,2% aukning milli ára. EBITDA nam 726 milljónum króna en EBITDA-hlutfall er 8,5% af tekjum miðað við 4,8% árið áður.

Handbært fé frá rekstri var 501 milljón króna samanborið við 222 milljónir króna árið 2015. Fjárfestingarhreyfingar námu 383 milljónum króna samanborið við 275 milljónir króna árið áður.

Í tilkynningu Íslandspósts kemur fram að mikill vöxtur hafi verið í pakkasendingum og að vörudreifing sé sífellt vaxandi þáttur í rekstri Íslandspósts en áherslur fyrirtækisins hafa beinst að því að ná enn betri árangri á því sviði.

Aukning sendinga erlendis frá var um 43% á milli ára og innlent pakkamagn jókst um 24% á sama tímabili.

„Ljóst er að vörudreifing mun skipa sífellt mikilvægara hlutverk í rekstri Íslandspósts en markmið fyrirtækisins er að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu á sviði dreifingar-, samskipta- og flutningalausna. Með því er unnið á móti áhrifum af verulegri fækkun bréfa sem hefur verið viðvarandi síðasta áratug. Frá árinu 2001 hefur árituðum bréfum undir 50 g fækkað um 57% og á árinu 2016 nam fækkun bréfa 7%,“ segir í tilkynningunni. 

 „Góður viðsnúningur varð á árinu 2016, en félagið skilaði hagnaði upp á 121 milljón króna sem er langþráð breyting eftir taprekstur síðustu ára. Reksturinn gekk vel á árinu 2016 þrátt fyrir að enn vanti upp á að félagið skili þeim hagnaði sem arðsemisstefna þess gerir ráð fyrir. Heildartekjur eru vaxandi en hreinn hagnaður var nokkru minni en gert hafði verið ráð fyrir einkum vegna gengisáhrifa þar sem styrking krónunnar leiddi til gengistaps. Á hinn bóginn gekk eftir umtalsverð lækkun kostnaðar milli ára, m.a. vegna fækkunar dreifingardaga í sveitum sem er liður í margvíslegum hagræðingaraðgerðum sem gripið hefur verið til á síðustu árum og leitt hafa til sparnaðar í rekstri sem nemur nú árlega um 1,2 milljörðum króna,“ er haft eftir Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts.

„Ljóst er að rekstrarumhverfi Íslandspósts er á margan hátt flókið þar sem fyrirtækið fer með einkarétt ríkisins á dreifingu póstsendinga undir 50 g, ber víðtækar lögboðnar alþjónustuskyldur ríkisins um land allt og á milli landa og er háð greiðslum samkvæmt alþjóðasamningum, sem allt í senn hefur verið fyrirtækinu kostnaðarsamt.

Stjórnendur Íslandspósts hafa um árabil vakið máls á því að einkaréttur í bréfadreifingu þjóni ekki hagsmunum félagsins og talað fyrir því að einkarétturinn verði afnuminn eins og gert er ráð fyrir í pósttilskipun Evrópusambandsins. Jafnhliða afnámi einkaréttar ríksins þurfa stjórnvöld að ákveða umfang póstþjónustunnar og þá hvort og hvernig standa eigi undir kostnaði við lögbundna þjónustu, sem til þessa hefur að fullu verið borin uppi af Íslandspósti án opinberrar aðkomu, ólíkt því sem við á víðast hvar í Evrópuríkjum. Ljóst er að forsendur póstþjónustunnar eru brostnar og er nauðsynlegt að niðurstaða fáist sem allra fyrst um mat á kostnaðarlegri byrði vegna alþjónustuskyldu.“ 

Í árslok 2016 námu heildareignir Íslandspósts 5.370 milljónum króna. Rekstrarfjármunir eru langstærstur hluti þess eða um 3.170 milljónir króna.

Þá námu skuldir Íslandspósts 3.056 milljónum króna og hafa þær hækkað lítillega á milli ára. Eigið fé nam 2.314 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 43% í árslok 2016 miðað við 42% árið áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK