97 milljóna hagnaður hjá Íslandssjóðum

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Íslandssjóðir högnuðust um 97 milljónir króna á síðasta ári miðað við 532 milljónir árið á undan. Hreinar rekstrartekjur á síðasta ári námu 1.170 milljónum króna miðað við 1.587 milljónir árið á undan. 

Samkvæmt tilkynningu einkenndist síðasta ár af fjárfestingu í vöruþróun og breytingum hjá félaginu. Þá var starfsmönnum í teymi sérhæfðra fjárfestinga fjölgað úr tveimur í sex og fjöldi sérhæfðra fjárfestingarkosta í stýringu félagsins tvöfaldaðist á árinu. Félagið greiddi 1.054 milljónir til Íslandsbanka á árinu 2016 í formi þjónustugjalda og arðgreiðslu.

Íslandssjóðir hf. eru elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins og að fullu í eigu Íslandsbanka.

Heildareignir félagsins námu 2.453 milljónum króna í árslok 2016 en voru 2.994 milljónir króna í ársbyrjun. Eigið fé í árslok 2016 nam 2.094 milljónum króna en var 2.395 milljónir króna í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 63,9% í árslok 2016 en þetta hlutfall má lægst vera 8,0%.

Í árslok 2016 voru 25 verðbréfa- og fjárfestingasjóðir í rekstri hjá félaginu og nam hrein eign þeirra 121.704 milljónum króna.

 „Rekstur Íslandssjóða gekk vel á árinu og einkenndist af fjárfestingu í vöruþróun ásamt lægri ávöxtun af eignum félagsins en árið 2015, sem skilaði sér í hóflegum hagnaði á árinu. Mikil aukning varð á umsvifum lausafjársafnsins sem tvöfaldaðist á árinu. Þrátt fyrir hóflega ávöxtun á verðbréfamörkuðum gekk stýring sjóða áfram vel og státa Íslandssjóðir af frábærum langtímaárangri í innlendum hlutabréfasjóðum sem og skuldabréfasjóðum og blönduðum sjóðum. Íslandssjóðir hafa allt frá stofnun félagsins árið 1994 haft skýra sérstöðu í stýringu ríkisskuldabréfasjóða. Það er afar ánægjulegt hvernig Íslandssjóðum tekst að halda því forskoti þrátt fyrir stóraukna samkeppni undanfarin ár,“ er haft eftir Kjartani Smára Höskuldssyni, framkvæmdastjóra Íslandssjóða, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK