„Þingvellir væru í rúst“

Þjóðgarðsvörður segir að Þingvellir væru í rúst í dag hefði …
Þjóðgarðsvörður segir að Þingvellir væru í rúst í dag hefði gjaldtaka ekki verið hafin á svæðinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Náttúrupassi eða aðgangseyrir við einstaka staði eru tvær leiðir sem bæði stuðla að dreifingu ferðamanna og tekjuöflun. Komugjöld, gistináttagjald eða skattheimta leiða okkur ekki að báðum markmiðum. 

Þetta kom fram í máli Daða Más Kristóferssonar, forseta félagsvísindasviðs HÍ, á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um gjaldtöku í ferðaþjónustu.

Að sögn Daða þarf samhengi að vera á milli verðs og væntinga. Ef Ísland stendur ekki undir væntingum miðað við verð verður erfiðara að viðhalda spurn eftir Íslandi sem ferðamannalandi. Telur hann að ekki sé hægt að eyða löngum tíma í að ræða hugmyndir án ákvörðunartöku. Ferðamenn séu auðlind sem gæti horfið. Auðlind sem erfitt gæti reynst að byggja upp á nýjan leik.

Komugjöld stuðla ekki að dreifingu

Daði fór yfir helstu leiðir sem nefndar hafa verið til tekjuöflunar í ferðaþjónustu og sagði það blasa við að einfaldasta leiðin væri afnám frá undanþágu á virðisaukaskatti. Þessi leið leiði hins vegar ekki til dreifingar ferðamanna.

Þá sagði hann að komugjöld gætu einnig verið skilvirk leið. Það stuðli hins vegar ekki að hagrænni, félagslegri eða umhverfislegri sjálfbærni. Til þess að komugjöldin hefðu einhver áhrif á flæði ferðamanna þyrftu þau að vera mjög há og misjöfn eftir stöðum. Sama væri með gistináttagjöld.

Telur hann að náttúrupassi eða aðgangseyrir á einstökum stöðum séu bestu leiðirnar til að tryggja skilvirka tekjuöflun og stýra flæði. Bendir hann á að Ísland bjóði upp á marga sambærilega kosti fyrir ferðamenn. Séu ferðamenn einungis komnir til landsins til að skoða Gullfoss eða Geysi muni aðgangseyrir ekki hafa áhrif þar á. Sé hins vegar bara ætlunin að skoða náttúruna að einhverju leyti gætu aðgangsgjöld stuðlað að dreifingu ferðamanna á mismunandi svæði. Þannig væri til dæmis að vera með þrepaskipt gjöld eða minni aðgangsstýringu á stöðum sem minna eru sóttir.

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður.
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sigurðsson

Tugmilljóna tekjur á Þingvöllum

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður tók undir með Daða og segir aðgangsgjöld á Þingvöllum ekki hafa haft nein áhrif á fjölda ferðamanna. „Við byrjuðum að taka gjald, 200 krónur, árið 2011. Auðvitað kostaði það farg og vesen. Þetta gerðum við á lagagrein sem einungis varðar Þingvelli. Við höfum núna marga tugi milljóna í tekjur af klósettunum. Það virkar sem aðgangsstýring. Fólk hnappast ekki þar saman þegar aðgangurinn er í röð og reglu.

„Í júní byrjuðum við að taka gjald á bílastæðinu og í fyrra höfðum við 70 milljónir í tekjur,“ sagði Ólafur einnig og bætti við að tekjur af Silfru hefðu verið 50 milljónir króna.

Ef Þingvellir hefðu beðið eftir miðstýrðu svari frá stjórnvöldum væru Þingvellir í rúst í dag að sögn Ólafs. Telur hann að forsvarsmenn einstakra svæða eigi að vinna að lausn með stjórnvöldum í stað þess að tekjur renni til ríkisvaldsins sem dreifi þeim síðan aftur.

Hann segir hægaganginn í kerfinu gríðarlega seinvirkan. „Ég kvíði því ef Þingvellir verða teknir og settir undir einhverja miðlæga ákvarðanatöku,“ segir hann og bætir við að góð staða svæðisins byggi á sjálfsaflafé. 

Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs HÍ.
Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs HÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gæti gestrisnin horfið?

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, spurði hvort fórnarkostnaður Íslendinga við uppbyggingu á ferðaþjónustu væri gjaldtaka við eigin náttúruperlur og aukinn kostnaður við að ferðast um eigið land. Sagði hún líklegt að viðhorf Íslendinga gagnvart ferðamönnum myndi breytast hratt í kjölfarið. Gestrisni Íslendinga hafi hingað til verið metin til einna helstu kosta landsins og slík þróun væri því ekki vænleg. 

„Við þurfum að sætta okkur við að þetta eru aðstæður sem við erum komin í og þurfum að bregðast við,“ svaraði Daði. Anna Dóra tók undir þetta en telur skattheimtu besta kostinn. Ef takmarka þyrfti fjölda ferðamanna ætti frekar að hækka skatta upp úr öllu valdi til að bregðast við.

„Þessi glápgjaldsumræða er orðin svo úrelt,“ sagði Ólafur og bætti við að ferðamenn á Þingvöllum væru að borga fyrir þjónustu á svæðinu. Ekki fyrir að horfa á náttúruna. „Það er auðvitað fólkið sem er að reka staðinn sem veit þetta best. Hvernig á ég að útskýra fyrir mínu starfsfólki að allir peningarnir sem við öflum sjálf séu teknir og settir í ferðamannasjóð?“ spurði hann. „Þessa miðstýringu vil ég ekki og þetta drepur niður frumkvæði á svæðinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK