Bankaskattur hækkar vaxtastig

Bankaskatturinn nam samtals tæpum níu milljörðum króna árið 2016 frá …
Bankaskatturinn nam samtals tæpum níu milljörðum króna árið 2016 frá stóru bönkunum þremur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankaskattur skerðir samkeppni, hækkar útlánavexti og dregur úr samkeppni á íbúðalánamarkaði að sögn Greiningardeildar Arion banka sem telur að afnám skattsins væri til þess fallið að lækka vaxtastig í landinu.

Árið 2010 var lagður á sérstakur skattur á skuldir fjármálafyrirtækja, einnig nefndur bankaskattur, til þess að afla tekna vegna kostnaðar sem hlaust af fjármálakreppunni og til að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja.

„Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar: Ríkið hefur eignast meirihluta bankakerfisins, búið er að vinda ofan af mestum kostnaði ríkisins við hrunið, hækka verulega eiginfjár- og lausafjárkröfur á bankana, styrkja Fjármálaeftirlitið, bæta regluverk er varðar fjármálakerfið til að draga úr áhættu o.sfrv.,“ segir Greiningardeild Arion bnka í nýjum Markaðspunktum.

„Þrátt fyrir það er þessi skattur enn til staðar og nemur 0,376% á ári af heildarskuldum allra fyrirtækja sem hafa heimild til að taka við innlánum.“

Níu milljarða króna

Bankaskatturinn nam samtals tæpum níu milljörðum króna árið 2016 frá stóru bönkunum þremur, eða sem nemur rúmum 9% af hreinum vaxtatekjum þeirra. „Þessi kostnaðarauki leggst beint ofan á fjármögnunarkostnað er því til þess fallinn að hækka útlánavexti,“ segir Greiningardeildin.

„Bankaskatturinn skerðir einnig samkeppni. Erlendir bankar, sem keppa við þá íslensku um að veita útflutningsfyrirtækjum lán, þurfa ekki að greiða bankaskatt og standa að því leyti til betur að vígi.“

„Einnig dregur þetta úr samkeppni á íbúðalánamarkaði, þar sem lífeyrissjóðir, sem greiða hvorki bankaskatt né tekjuskatt, geta oft boðið hagstæðari kjör.“

Að sögn Greiningardeildar Arion banka væri afnám bankaskatts til þess fallið að lækka vaxtastig í landinu og auka samkeppni á fjármálamarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK