Ferðamenn kaupa lítið í ÁTVR

Drykkja ferðamanna fer fyrst og fremst fram á börum.
Drykkja ferðamanna fer fyrst og fremst fram á börum. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áfengisneysla ferðamanna fer fyrst og fremst fram á vínveitingastöðum. Þannig námu útgjöld ferðamanna á börum hér á landi um 2,5 milljörðum króna á síðasta ári sem gerir um 1.400 krónur á hvern ferðamann. Þetta samsvarar því að hver ferðamaður hafi að meðaltali keypt sér rúmlega einn bjór á bar hér á landi á síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans á verslun og þjónustu.

Til samanburðar var kortanotkun erlendra ferðamanna í ÁTVR um 829 milljónir króna eða þriðjungur af neyslunni á börum. Töluverður hluti áfengisneyslu fer einnig fram á veitingastöðum og er hluti ÁTVR því enn minni en ætla má af ofangreindu. Ef gert er ráð fyrir að um 30% af reikningi á veitingahúsum sé áfengi fer hlutfall þess áfengis sem ferðamenn kaupa í gegnum ÁTVR niður í 11,6%.

Eyða þrisvar sinnum meira á veitingastöðum en í búðum

Velta ferðamanna á veitingastöðum nam 15,5 milljörðum króna árið 2016 sem gerir rúmar 8.800 krónur á hvern erlendan ferðamann. Hver ferðamaður eyðir að meðaltali 3.400 krónum á skyndibitastöðum í ferð sinni hingað. Samtals eyða þeir því að meðaltali 11.200 krónum á veitingahúsum og á skyndibitastöðum.

Þetta er verulega há upphæð sé litið til þess að hver ferðamaður kaupir einungis matvörur fyrir rúmlega 4.000 krónur í matvöruverslunum, sérvörumörkuðum og bakaríum. Ferðamenn eyða sem sagt tæplega þrisvar sinnum hærri upphæð á veitinga- og skyndibitastöðum en í matvöruverslunum.

Ferðamenn kaupa innan við þriðjung af áfengi í Vínbúðinni.
Ferðamenn kaupa innan við þriðjung af áfengi í Vínbúðinni. Vínbúðin/Ottó S. Hreinsson

Rúmur helmingur af heildarveltu

Kortavelta erlendra ferðamanna nam 232 milljörðum króna hér á landi í fyrra. Til að setja þá tölu í samhengi má nefna að heildarvelta smásölu í landinu nam 430 milljörðum á sama tímabili. Kortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi hefur vaxið mikið á síðustu árum. Þannig var kortavelta þeirra 74 milljarðar árið 2012 og óx veltan því að meðaltali um þriðjung á hverju ári fram til ársins 2016.

Til samanburðar óx velta í smásölu um að meðaltali 5,8% á sama tíma. Kortaveltan mælir hins vegar ekki alla neyslu erlendra ferðamanna, enda greiða þeir að hluta með reiðufé eða fyrirfram áður en þeir koma til landsins t.d. í gegnum erlenda aðila sem selja gistingu og flug í umboði fyrir innlenda aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK