Betri arðsemi í verslun og heildsölu

Álagningin nemur 22% hjá heildsölum en 31% hjá smásölum, samkvæmt …
Álagningin nemur 22% hjá heildsölum en 31% hjá smásölum, samkvæmt útreikningum Landsbankans. Ljósmynd/Norden.org

Arðsemi heildsala og smásala hefur verið umtalvert betri en gengur og gerist í atvinnulífinu. Atvinnugreinarnar greiða einnig ríkulegri arð til hluthafa en sem nemur meðaltali atvinnuvega. Á árunum 2012 til 2015 mældist meðalarðsemi eigna í heild- og smásölu á bilinu 8,7-9,3% en til samanburðar var hún 6,1% í svokölluðu viðskiptahagkerfi. Það er flokkur sem Hagstofa skilgreinir sem allan fyrirtækjarekstur á Íslandi fyrir utan lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingarstarfsemi og opinbera starfsemi. Þetta kemur fram í greiningu frá Hagfræðideild Landsbankans.

Meiri sveiflur í heildsölu

Í greiningu Landsbankans segir að arðsemi í smásölu hafi aukist marktækt tölfræðilega en hið sama sé ekki hægt að segja um heildsölu. Nokkuð meiri sveiflur hafi verið í arðsemi heildsölu en meiri sveiflur dragi úr tölfræðilegri marktækni.

Smásalar greiddu arð árið 2015 sem nemur um 4,5% af eignum (án óefnislegra eigna og eignarhluta í dótturfélögum) og heildsalar 3,6% af eignum. Til samanburðar nam arðgreiðslan 2% af eignum í viðskiptahagkerfinu.

„Álagning í heildsölu lækkaði yfir tímabilið 2002-2015 en var óbreytt í smásölu. Því er það gild spurning hvort tilvistarkreppa heildsala sé meiri en smásala vegna þeirra miklu breytinga sem eiga sér nú stað í neysluhegðun með tilkomu aukinnar netverslunar,“ segir í greiningunni.

Álagningin nemur 22% hjá heildsölum en 31% hjá smásölum, samkvæmt útreikningum Landsbankans.

Samkeppni fer harðnandi

Fram kemur í greiningunni að lægri álagning hjá heildsölum sé vísbending um harðnandi samkeppni á þeim vettvangi. „Hugsanleg skýring á þessu er sú að smásalar kaupa í auknum mæli beint frá birgjum erlendis í stað þess að kaupa vörur í gegnum innlenda heildsala. Það má þó gera ráð fyrir að smásala eigi einnig undir högg að sækja vegna áhrifa frá þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í milliliðalausri netverslun á síðustu árum, “ segir í greiningunni.

Kraftar í báðar áttir

Ljóst er að kakan sem er til skiptanna fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki fer stækkandi með auknum ferðamannafjölda. Auk þess sem einkaneysla fer vaxandi samhliða sterkri krónu, auknum kaupmætti og háu atvinnustigi. „Á móti vegur að verslun Íslendinga á ferðalögum erlendis og gegnum erlendar netverslanir er einnig að aukast hratt og veitir innlendri verslun aukna samkeppni en viðskipti einstaklinga beint við erlenda aðila jukust um tæplega 22 milljarða króna í fyrra,“ segir í greiningunni. Að jafnaði má ætla að um 11% þeirra sem staddir eru á landinu hverju sinni séu erlendir ferðamenn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK