AGS: Góðir kaupendur umfram hraða

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kynnti niðurstöður sínar í Hannesarholti í dag. Formaður …
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kynnti niðurstöður sínar í Hannesarholti í dag. Formaður sendinefndar AGS fyrir Ísland er Ashok Bhatia. mbl.is/Golli

Ashok Bhatia, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir kaupin á Arion banka vera lifandi dæmi um breytt fjármálaumhverfi hér á landi í kjölfar afléttingar gjaldeyrishafta. Hann segir nefndina ekki vera með sérstakar ráðleggingar um að vogunarsjóðir séu verri kaupendur en aðrir en ítrekar að eigendur fjármálafyrirtækja þurfi að fara í gegnum ítarlega skoðun.

Tveggja vikna heimsókn sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi er nú lokið og átti nefndin fundi með fulltrúum stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, aðilum á vinnumarkaði og fulltrúum einkageirans. Nefndin stóð fyrir blaðamannafundi í Hannesarholti í dag og kynnti niðurstöður sínar. Nefndin segir það vera forgangsmál að styrkja eftirlit með fjármálamörkuðum hér á landi í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta. Áhættur og tækifæri fylgi opnum markaði og hörð samkeppni á bankamarkaði sé handan við hornið. 

Sameina bankaeftirlit í Seðlabanka Íslands

Sendinefndin segir einn valmöguleika vera að sameina eftirlit og eftirfylgni með regluverki tengdu bankastarfsemi hjá Seðlabanka Íslands. Aðskilja bankaeftirlit þannig frá eftirliti með viðskiptalífinu að öðru leyti. Nefndin telur Fjármálaeftirlitið ekki nægilega aðskilið frá stjórnmálum auk þess sem hætta sé á togstreitu milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Til þess að leysa þessi vandamál séu breytingar á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nauðsynlegar. Það ætti að vera forgangsatriði hjá Alþingi að mati sendinefndar AGS.

Þá telur sendinefndin að stjórnvöld eigi að sýna þolinmæði við einkavæðingu Landsbankans og Íslandsbanka. Finna eigi kaupendur með langtímatengsl við Ísland. Forgangsraða eigi gæðum kaupenda ofar hröðu ferli eða kaupverði. Nauðsynlegt sé að væntanlegir kaupendur fari í gegnum ítarlega skoðun eftirlitsyfirvalda og að miklar kröfur verði gerðar til eigenda fjármálafyrirtækja.

Sendinefnd AGS telur að sameina eigi bankaeftirlit undir einum hatti …
Sendinefnd AGS telur að sameina eigi bankaeftirlit undir einum hatti í Seðlabankanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tjáir sig ekki um þá sem sitja hjá

Spurður um aflandskrónueigendur sem ekki gengu að nýlegu samkomulagi stjórnvalda segist Bhatia ekki geta tjáð sig um efnið þar sem tveggja vikna glugginn til að ganga að samkomulaginu sé ennþá opinn. Að öðru leyti segir hann samkomulagið sem þó náðist vera jákvætt.

Áskoranir fyrir útflutningsfyrirtæki

Sendinefndin segir grunvallarbreytingar vera að eiga sér stað í íslenska hagkerfinu þar sem ferðaþjónustan er að taka við sem helsta stoðin. Telur nefndin ekki líklegt að greinin geti horfið snögglega heldur sé túrisminn kominn til að vera. Leiði þetta líklega til hærra raungengis krónunnar.

Spurður um áhrif sterkari krónu á útflutningsfyrirtæki segir Bhatia miklar áskoranir framundan. Bendir hann þó á að sjávarútvegurinn eigi góð ár að baki og eigi því að vera vel í stakk búinn til að takast á við það. Hins vegar séu alltaf einhverjir „sigurvegarar og taparar“.

Nauðsynlegt er að bregðast hratt við ef frekari verðhækkanir á …
Nauðsynlegt er að bregðast hratt við ef frekari verðhækkanir á fasteignamarkaði verða drifnar áfram af lántöku. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bregðast hratt við breytingum á húsnæðismarkaði

Sendinefndin fjallaði einnig um húsnæðismarkaðinn og segir þrýstinginn á markaði geta valdið ofhitnun í kerfinu. Hins vegar sé ekki komin ástæða til að hafa miklar áhyggjur þar sem verðhækkanir séu ekki drifnar áfram af lántökum heldur framboðsskorti.

Hækki húsnæðisverð of mikið gæti það leitt til vandræða við innflutning á erlendu vinnuafli. Fáist ekki erlent vinnuafl til landsins sökum húsnæðiskostnaðar gæti það leitt til ofhitnunar. Tók nefndin þó fram að von væri á fleiri íbúðum á markaðinn og að það muni létta af einhverjum þrýstingi. Ef staðan breytist sé hins vegar ástæða til að bregðast hratt við með því að takmarka t.d. lánshlutfall eða banna lánveitingar lífeyrissjóða. Nauðsynlegt sé að fylgjast mjög vel með markaðnum.

Svigrúm fyrir stýrivaxtalækkun

Spurður um stýrivexti segir Bhatia mögulegt að svigrúm muni myndast fyrir stýrivaxtalækkun ef verðbólguvæntingar haldast lágar. Segir hann sendinefndina þó ekki vera með neinar ráðleggingar um umfang vaxtalækkunar eða tímasetningar. Verði hins vegar einhver mistök gerð sem leiði til mögulegs fjármagnsútflæðis myndist þörf til að hækka stýrivexti á ný.

Hér má lesa yfirlýsingu sendinefndar AGS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK