Viðurnefnið „Puffin“

Baksamningar eru áberandi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Segir í skýrslunni að verkefnið, sem aðilar lögðu áherslu á að leynd ætti að ríkja um, hafi einkum gengið undir viðurnefninu „Puffin“.

Ljóst er af gögnum rannsóknarnefndarinnar sem varða baksamningana um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. að viðurnefnið „Puffin“ var hjá þeim sem stóðu að baksamningunum jöfnum höndum notað annars vegar um það verkefni sem slíkt og hins vegar um fjármálafyrirtækið Kaupþing hf., sem átti þátt í því.

Guðmundur Hjaltason.
Guðmundur Hjaltason.

Meðal þeirra sem koma að gerð samninganna eru forsvarsmenn Kaupþings og einstakir starfsmenn, Ólafur Ólafsson og Guðmundur Hjaltason, sem var einn nánasti samstarfsmaður Ólafs í viðskiptum um kaup á hlut ríkisins og aðkomu þýska bankans sem síðan kom ekkert að kaupunum á annan hátt en þann að fá greitt fyrir að setja nafn sitt við samninginn.

Meðal gagna sem vísað er til er tölvupóstur sem Ralf Darpe, annar ráðgjafi S-hópsins frá Société Générale, sendi Ólafi Ólafssyni 17. desember 2002 með afriti á hinn ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale, Michael Sautter. 

Af þessum tölvupósti má ráða að Darpe og Sautter hafi séð um að bóka fyrir Ólaf Ólafsson tvo fundi með þýskum bankamönnum í Frankfurt, sem átt hafi að fara fram tveimur dögum síðar, eða 19. desember 2002.

Fyrri fundurinn var bókaður með (Peter) Gatti, sem þar var sagður stjórnarmaður í Hauck & Aufhäuser, og (Martin) Zeil, sem sagður var í tölvupóstinum forstöðumaður samsettrar fjármögnunar hjá sama banka. Síðari fundurinn skyldi vera með framkvæmdastjóra annars þýsks banka.

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Í tölvupósti Darpe var svo stungið upp á hótelgistingu fyrir Ólaf í Frankfurt og að síðustu óskað eftir að hann léti vita hvort Darpe og Sautter ættu að bóka hótel fyrir Ólaf og „the Puffin“, þ.e. „Lundann“. Með síðustu orðunum var augljóslega skírskotað til einhvers einstaklings eða einstaklinga sem Darpe og Sautter væntu að myndu fylgja Ólafi í þessa fundaferð til Frankfurt.

Skírskotun í tölvupóstinum til „the Puffin“ sem hugsanlega ætti að panta hótelgistingu fyrir í Frankfurt samhliða Ólafi Ólafssyni vísaði þannig til Kaupþings hf. og þá eðlilega í reynd til einstaklings eða einstaklinga á vegum þess. Þetta er ljóst af fjölmörgum öðrum gögnum rannsóknarnefndar þar sem þetta viðurnefni kemur fram.

Ekkert sem bendir til aðkomu Kristjáns, Margeirs og Finns 

Við rannsókn nefndarinnar gáfu meðal annars skýrslu Kristján Loftsson, Margeir Daníelsson og Finnur Ingólfsson. Tveir hinir fyrstnefndu voru stjórnarmenn í Keri hf. á þessum tíma, þar af Kristján stjórnarformaður og hluthafi gegnum eignarhluti í öðrum félögum.

Margeir var einnig framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins sem var hluthafi í Keri hf. ásamt því að vera hluti af S-hópnum og beinn fjárfestir í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Finnur Ingólfsson var þá nýorðinn forstjóri Vátryggingafélags Íslands hf. sem var hluti af S-hópnum og beinn fjárfestir í kaupunum auk óbeinnar fjárfestingar til viðbótar gegnum 0,5% eignarhald í Eglu hf. Samanlagt stóðu Samvinnulífeyrissjóðurinn og VÍS að kaupum á um 21% þess hlutar sem seldur var.

Kristján, Margeir og Finnur höfnuðu því allir í skýrslum sínum fyrir rannsóknarnefndinni að hafa þá eða síðar haft nokkra vitneskju um baksamningana um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf.  Af framburðum þeirra varð ekki annað ráðið en að atriði varðandi þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum á hlut ríkisins á Búnaðarbankanum sem þeim voru kynnt innan Kers hf. og S-hópsins, og þá af Ólafi Ólafssyni og öðrum sem unnu að málinu fyrir S-hópinn hefðu verið á sömu leið og kynnt var opinberlega og gagnvart íslenskum stjórnvöldum.

Þetta fær stuðning í fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndar að því leyti að engin gögn eða upplýsingar hafa komið fram við rannsókn nefndarinnar sem gætu gefið tilefni til að ætla að Kristján, Margeir og Finnur hafi verið viðriðnir eða haft vitneskju um baksamningana og ráðstafanir sem tengdust þeim.

En Guðmundur, Bjarki og Zeil vissu meira

Á meðal gagna rannsóknarnefndar eru afrit tölvupóstsamskipta sem áttu sér stað á tímabilinu 10. til 16. janúar 2003 á milli Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra hjá Samskipum hf., og fulltrúa Ólafs Ólafssonar í söluferli Búnaðarbankans, Bjarka Diego, starfsmanns Kaupþings hf. og Martin Zeil, forstöðumanns lögfræðisviðs Hauck & Aufhäuser.

Í þessum tölvupóstsamskiptum voru drög að baksamningunum og skjölum sem tengdust þeim beint eða óbeint send ítrekað á milli mannanna þriggja með breytingum, viðbótum og/eða athugasemdum hverju sinni, allt uns lokadrög baksamninganna lágu fyrir síðla kvölds 15. janúar 2003, það er kvöldið fyrir undirskrift þeirra og kaupsamnings S-hópsins og íslenska ríkisins um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Hátt á annan tug slíkra draga að baksamningunum frá þessu tímabili liggja fyrir í gögnum rannsóknarnefndar, þó með mismiklum innbyrðis breytingum. Virk þátttaka í þessum tölvupóstsamskiptum einskorðaðist að meginstefnu við fyrrnefnda þrjá menn en einstakir tölvupóstar voru langflestir einnig sendir sem afrit á stærri hóp viðtakenda, í sumum tilvikum þannig að slíkir viðtakendur afrita fengu afrit af nær öllum þessum tölvupóstum og fylgiskjölum þeirra.

Af hálfu Hauck & Aufhäuser sinnti Martin Zeil gerð baksamninganna eins og hún birtist í þessum tölupóstsamskiptum. Að auki fékk Peter Gatti í sumum tilvikum afrit af umræddum tölvupóstum og skjaladrögum varðandi baksamningana. Fyrir Kaupþing hf. vann Bjarki Diego, starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar félagsins, helst að gerð baksamninganna, samkvæmt þessum tölvupóstsamskiptum.

Hreiðar Már, Steingrímur Kára og Krisján Þorbergs fengu afrit

Að auki voru afrit flestra tölvupósta sem þá vörðuðu einnig send til tveggja úr hópi æðstu stjórnenda Kaupþings hf., Hreiðars Más Sigurðssonar aðstoðarforstjóra og Steingríms P. Kárasonar, forstöðumanns áhættustýringar. Einnig fékk Kristján Þorbergsson hæstaréttarlögmaður, sem ekki starfaði þá hjá Kaupþingi hf., svo kunnugt sé, í flestum tilvikum afrit af slíkum tölvupóstum.

Magnús, Eggert og Kristín einnig upplýst

Að því er varðar innri tölvupóstsamskipti Kaupþings hf. og KBL (Kaupþing í Lúxemborg) um baksamningana og ráðstafanir tengdar þeim áttu sömu starfsmenn þessara félaga þátt í þeim en einnig fleiri starfsmenn, mismikinn eftir atvikum.

Framkvæmdastjóri KBL, Magnús Guðmundsson, og Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá KBL, áttu umtalsverðan og virkan þátt í þessu ferli á ýmsum stigum, einkum þá Eggert, varðandi þær ráðstafanir sem Kaupþing hf. og KBL sáu um að framkvæma vegna baksamninganna. Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf., átti einnig þátt í tölvupóstsamskiptum og ráðstöfunum innan Kaupþings hf. sem gerðar voru í tengslum við baksamningana.

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðmundur Hjaltason virkur þátttakandi

Loks tók þátt í gerð baksamninganna þröngur hópur manna sem tengdust Ólafi Ólafssyni úr S-hópnum og atvikum sem skýrsla þessi varðar með þeim hætti að óhætt telst að líta á þá sem trúnaðarmenn Ólafs í söluferli Búnaðarbankans, enda þótt þeir hafi allir formlega komið að hinu opinbera söluferli bankans sem fulltrúar eða ráðgjafar S-hópsins.

„Er þá fyrst og fremst átt við Guðmund Hjaltason, sem líkt og áður sagði átti virkan þátt í gerð baksamninganna og var á sama tíma einn helsti samningamaður S-hópsins við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um kaupin á Búnaðarbankanum.

Hins vegar er þá átt við ráðgjafa S-hópsins frá Société Générale, Michael Sautter og Ralf Darpe. Afrit tölvupósta og draga að baksamningunum voru í flestum tilvikum einnig send til þeirra síðarnefndu, aðallega þá Sautter. Ólafur Ólafsson var einnig sjálfur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum rannsóknarnefndarinnar, tvisvar á fyrrnefndu tímabili í hópi þeirra sem Guðmundur sendi afrit af tölvupóstum og meðfylgjandi drögum að baksamningunum.

Tölvupóstarnir og skjöl sem þeim fylgdu í viðhengjum, einkum þá drögin að baksamningunum á hverjum tíma með breytingum og viðbótum frá einni útgáfu til annarrar, bera með sér að hafa að meginstefnu verið send á milli og samin eða fullgerð af Martin Zeil, Bjarka Diego og Guðmundi Hjaltasyni. Athugasemdir í tölvupóstunum benda einnig til þess að aðilar að tölvupóstsamskiptunum hafi þessu til viðbótar hist á fundum á sama tíma þar sem unnið hafi verið að undirbúningi baksamninganna,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Hauck & Aufhäuser fékk þóknun fyrir aðild að baksamningi

Samkvæmt gögnum rannsóknarnefndarinnar voru baksamningarnir, frá fyrstu drögum þeirra sem liggja fyrir og allt til endanlegrar útgáfu þeirra, tveir samhliða og nátengdir samningar sem vísuðu hvor til hins og voru hvor fyrir sig sagðir óaðskiljanlegur hluti hins.

Annar samningurinn hafði að meginefni ákvæði um óafturkræfan sölurétt Hauck & Aufhäuser á hlutum bankans í Eglu hf. til aflandsfélags sem var gagnaðili bankans að samningunum.

Sölurétturinn var háður því eina skilyrði að tiltekinn tími liði en það skilyrði endurspeglaði aftur tiltekið ákvæði í kaupsamningi S-hópsins við ríkið um Búnaðarbanka Íslands hf. um 21 mánaðar lágmarkstímalengd á eignarhaldi.

Kaupverð aflandsfélagsins ef sölurétti væri beitt skyldi vera fjárhæð jöfn hlutafjárframlagi bankans til Eglu hf. Fjárhæðin skyldi þó aldrei vera hærri en 33.454.372 Bandaríkjadalir.

Á móti var aflandsfélaginu veittur forkaupsréttur að hlutum Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. að uppfylltu því eina skilyrði að gilt tilboð hefði komið fram í þá, óháð fjárhæð slíks tilboðs. Kaupverð við beitingu forkaupsréttar var hins vegar fastsett og skyldi að hámarki vera jafnt áðurnefndu kaupverði í tilviki beitingar söluréttar, þ.e. 33.454.372 Bandaríkjadalir.

Önnur ákvæði samningsins girtu svo í reynd fyrir að Hauck & Aufhäuser ráðstafaði hlutunum í Eglu hf. til neins nema aflandsfélagsins. Í samræmi við meginefni hans hafði þessi samningur og öll fyrirliggjandi drög að honum yfirskriftina „Put Option Agreement“.

Hinn samningurinn hafði að meginefni ákvæði um það að aflandsfélagið greiddi inn á bankareikning sinn hjá Hauck & Aufhäuser 35.454.372 Bandaríkjadali, sem væri jafngildi umsamins hlutafjárframlags bankans til Eglu hf. að viðbættum kostnaði, og skuldbyndi sig til að ráðstafa ekki fjárhæðinni meðan samningurinn væri í gildi. Fjárhæðin var handveðsett bankanum sem trygging gegn öllum kröfum bankans vegna söluréttarsamningsins, sérstaklega kröfu til greiðslu kaupverðs samkvæmt þeim samningi.

Þá kvað samningurinn á um að óháð nýtingu söluréttarins ábyrgðist aflandsfélagið skaðleysi Hauck & Aufhäuser af öllum verðsveiflum og verðlækkun á hlutabréfum í Búnaðarbankanum meðan samningurinn gilti sem og af hvers kyns tjóni bankans vegna fleiri nánar tilgreindra mögulegra atvika og aðstæðna.

Í meginatriðum miðuðu þau ákvæði að því að tryggja Hauck & Aufhäuser skaðleysi af öllum hugsanlegum kostnaði og tjóni sem hlotist gæti á hagsmunum bankans vegna aðkomu hans að einkavæðingu Búnaðarbankans. Samningurinn hafði einnig að geyma ákvæði um þóknun Hauck & Aufhäuser fyrir að standa að baksamningunum. Hún var ákveðin samtals 1.000.000 evrur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK