Rekstrarhagnaður Símans eykst um 30%

Orri Hauksson forstjóri Símans
Orri Hauksson forstjóri Símans mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rekstrarhagnaður Símans fyrir afskriftir og fjármagnsliði jókst um 30,8% milli tímabila og nam 2.099 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 samanborið við 1.605 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. EBITDA hækkaði því um 494 milljónir króna eða 30,8% milli ára.

Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Símans.

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 6.723 milljónum króna samanborið við 6.882 milljónir króna á sama tímabili 2016. Hagnaður nam 774 milljónum króna samanborið við 310 milljónir króna í fyrra.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.427 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en var 1.333 milljónir króna á sama tímabili 2016. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.096 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en 896 milljónum króna á sama tímabili 2016.

Vaxtaberandi skuldir námu 22,5 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 en voru 22,9 milljarðar króna í árslok 2016. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 18,2 milljarðar króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2017.

Þá námu hrein fjármagnsgjöld 207 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 en voru 296 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Fjármagnsgjöld námu 352 milljónum króna, fjármunatekjur voru 135 milljónir króna og gengishagnaður var 10 milljónir króna.

Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 55,1% í lok fyrsta ársfjórðungs 2017 og eigið fé 35,0 milljarðar króna.

Lægri kostnaður og aukin sala

„Starfsfólki samstæðunnar tókst að fylgja árangrinum sem náðist á síðari hluta ársins 2016 vel eftir. Rekstur þessa fyrsta fjórðungs batnar myndarlega milli ára, sem fyrst og fremst má þakka markvissum aðgerðum við að lækka kostnað hjá samstæðunni, aukinni sölu Sensa á þjónustu og lausnum sem og vaxandi eftirspurn eftir sjónvarpsþjónustu Símans,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.

Samstæðan ver þessi misserin háum fjárhæðum í að uppfæra kerfi sín. „Markmiðið er að styrkja undirstöðurnar fyrir samkeppni framtíðarinnar. Míla heldur áfram að ljósleiðaravæða höfuðborgarsvæðið og hefur tengt á sjöunda þúsund heimila við ljósleiðara sinn það sem af er ári, til viðbótar við þau 30 þúsund sem þegar höfðu verið tengd. Tugir nýrra 4G senda voru settir upp til að efla enn frekar hraðasta farsímakerfi landsins. Nú standa yfir prófanir á nýjum og enn hraðari sendum sem ná 300 megabita hraða. Kostnaður beggja fjárfestingaverkefna er hagstæður sem veldur því að útbreiðslan er hröð,“ er þá haft eftir Orra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK