Undirbúningur að þjóðarsjóði hafinn

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar í dag.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverð undirbúningsvinna hefur verið unnin að stofnun sjóðs sem halda myndi utan um arðgreiðslur Landsvirkjunar. Sjóðurinn gæti stækkað hratt þar sem í hann gætu bæst arðgreiðslur er nema 10 til 20 milljörðum króna á hverju ári. Eftir 20 ár gæti fjárhæð sjóðsins verið um 20% af vergri landsframleiðslu miðað við hóflega ávöxtun. 

Þetta kom fram í máli Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðaherra á ársfundi Landsvirkjunar í dag. Hann segir hugmyndir um að sjóðurinn verði trygging gegn stóráföllum vera efst á blaði og nefnir hann mögulegt Kötlugos, skæðan sjúkdómsfarald eða vistkerfisbrest á fiskimiðum í þessu samhengi.

Benedikt sagði jafnframt að ekki væri stefnt að því að breyta eignarhaldi ríkisins á Landsvirkjun.

Benedikt segir mikilvægt að ríkið tryggi að arður Landsvirkjunar skili sér til almennings í einhverju formi. Sagði hann að nýr vinnuhópur um sjóðinn hafi verið skipaður og er hann nú að störfum. Líkur séu á því að innan skamms geti Landsvirkjun farið að greiða umtalsverðar fjárhæðir í arðgreiðslur.

Freistandi að láta arðinn renna í ríkissjóð

Benedikt sagði að freistandi væri að láta arðgreiðslurnar renna til ríkissjóðs en að heppilegra væri að búa svo um hnútana að greiðslurnar fari til sérstakra nota í þjóðarsjóð. Hugmyndir séu um að nota sjóðinn til sveiflujöfnunar, sem tryggingu gegn náttúruvá eða sem stuðning við nýsköpun og þróun. Sum markmið gætu einnig gengið saman. Efst á blaði væri þó trygging gegn stóráföllum.

Er nú unnið að mótun tillagna um sjóðinn og er litið til reynslu annarra þjóða við vinnuna. Benedikt segir eðlilegt að sjóðurinn fjárfesti aðeins utan Íslands til þess að eignir hans rýrni ekki samhliða innlendum áföllum.

Benedikt segir ekki ákveðið hver taka muni endanlegar ákvarðanir um arðgreiðslur í sjóðinn en valdið gæti til dæmis verið hjá Landsvirkjun eða fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK