Ráðherrar skoðuðu gagnaver

Björn Brynjúlfsson framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður …
Björn Brynjúlfsson framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Jóhann Þór Jónsson, forstöðumaður rekstrarsviðs Advania og formaður DCI, Isaac Kato fjármálastjóri Verne Global, Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI. Aðsend mynd.

Samtök gagnavera, DCI, buðu Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í heimsókn í dag í Mjölni, gagnaver Advania og gagnaver Verne Global sem bæði eru staðsett á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarns en DCI er starfsgreinahópur innan samtakanna sem vinnur að því að bæta starfsskilyrði gagnavera á Íslandi. Innan samtakanna eru átta aðilar en unnið er að uppbyggingu fleiri gagnavera hér á landi.  

Vitnað er í Jóhann Þór Jónsson, formann DCI, sem segir tilgang heimsóknarinnar hafa verið að kynna fyrir ráðherrunum starfsemi gagnavera á Íslandi og helstu áskoranir í frekari vexti þeirra. „Það hefur ítrekað verið fjallað um möguleika á nýjum grænum iðnaði á Íslandi og mikilvægt að horft verði til gagnavera þegar kemur að því að forgangsraða þeirri orku sem virkjuð verður á Íslandi til framtíðar. Rekstur gagnavera er grænn iðnaður og honum fylgja störf fyrir vel menntað fólk. Það hefur sýnt sig erlendis að á þeim svæðum þar sem mikið er af gagnaverum þá safnast saman fjöldi tækni- og rannsóknarfyrirtækja. Þannig hafa nágrannar okkar á Norðurlöndum, sér í lagi í Svíþjóð, séð mikil tækifæri í uppbyggingu gagnavera og hlúð markvisst að þeim í gegnum skattkerfisbreytingar og öflugt stuðningsnet. Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera og við höfum því alla burði til að verða á meðal leiðandi þjóða á þessu sviði en til þess þarf aðstoð og áhuga stjórnvalda,“ er haft eftir Jóhanni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir heimsóknina hafa verið fróðlega. „Þessi gagnaver hafa náð ágætum vexti þrátt fyrir harða alþjóðlega samkeppni, þau nota orðið töluverða orku og eru því kærkomin viðbót sem eykur fjölbreytnina í hópi helstu orkukaupenda landsins,“ er haft eftir Þórdísi.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir fyrirsjáanlegan vöxt í þessari atvinnugrein afar áhugaverðan.  „Það er verkefni okkar stjórnmálamanna að skapa greininni sem best starfsskilyrði hér á landi til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði. Þannig þurfi bæði að líta til aukinnar raforkuframleiðslu hér á landi sem og bættra tenginga til gagnaflutninga til annarra landa,“ er haft eftir Jóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK