Ár lækkana hjá Icelandair

Icelandair hefur fallið hratt á síðasta ári.
Icelandair hefur fallið hratt á síðasta ári. mbl

Í dag er eitt ár síðan hlutabréf Icelandair Group náðu sögulegu hámarki í Kauphöll Íslands. Síðan hafa þau fallið um 63%. Um 120 milljarðar króna af markaðsvirði félagsins hafa þurrkast út á þessum tíma. Gengi bréfanna fyrir ári á toppnum var 38,9 en í dag standa þau í 14,2.

Markaðsvirði Icelandair Group var um 190 milljarðar króna 28. apríl í fyrra en í dag er það 69,6 milljarðar króna.

Hlutabréf félagsins hafa þó hækkað umtalsvert í dag, eða um 7,73%, sökum þess að afkomuspá félagsins var hækkuð í gærkvöldi eftir birtingu ársfjórðungsuppgjörs félagsins þar sem greint var frá batnandi aðstæðum í rekstri.

Bréf félagsins hafa verið að lækka jafnt og þétt á síðasta ári en þó tekið nokkrar skarpar dýfur. Ársbyrjanir þessa árs og síðasta settu tóninn.

Í byrjun febrúar þessa árs lækkuðu bréfin töluvert eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun þar sem greint var frá því að gert væri ráð fyr­ir minni tekj­um og hagnaði á þessu ári en áætlað hafði verið. 

Sagði Icelanda­ir þá að þetta mætti rekja til þess að verri staða væri í bók­un­ar­flæði fé­lags­ins og að bók­an­ir væru hæg­ari en gert hafði verið ráð fyr­ir. Þá hafi meðal­far­gjöld á markaði lækkað um­fram spár. Auk þess var óvissa vegna breyt­inga í alþjóðastjórn­mál­um nefnd sem ástæða sem og hækk­andi olíu­verð og verk­fall í sjávar­út­vegi.

Þá lækkuðu bréfin einnig nokkuð skarpt síðasta sumar þegar félagið breytti afkomuspá sinni. Var þá gert ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir af­skrift­ir, fjár­magns­kostnað og tekju­skatt myndi nema 210 til 220 millj­ón­um doll­ara en fram að því gerði fé­lagið ráð fyr­ir að sam­svar­andi hagnaður næmi 235 til 245 millj­ón­um doll­ara. EBITDA ársins nam að lokum 220 milljónum dollara.

Lækkunin hófst hins vegar síðasta vor þegar markaðir brugðust harkalega við uppgjöri félagsins en væntingar höfðu verið miklar. Í samtali við mbl á þeim tíma sagði Kristján Markús Braga­son, sér­fræðing­ur hjá Grein­ingu Íslands­banka, að uppgjörið réttlætti ekki svona lækkun þrátt fyrir einhver frávik frá því sem menn væntu. „Síðan aðlöguðu stjórn­end­ur fé­lags­ins sjálf­ir rekstr­aráætl­un árs­ins um óveru­lega fjár­hæð sem skipti ekki öllu máli varðandi framtíðar­virði rekst­urs­ins, en það var það sem virðist hafa ýtt þessu af stað, og hækk­andi olíu­verð hjálp­ar klár­lega ekki,“ sagði Kristján.

Samkvæmt umræddu uppgjöri var EBITDA félagsins já­kvæð í fyrsta sinn síðan árið 2010 og nam 1,1 milljón dollara, samanborið við 2,3 milljóna dollara tap árið áður.

Jóhanna Katrín Pálsdóttir, sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, segir að allar helstu stærðir hafi legið með flugfélaginu á síðasta ári og að sterk merki hafi verið um að árið yrði gott; ferðamannaiðnaðurinn í miklum vexti, olíuverð lækkandi og nýtingarhlutföll góð.

Í byrjun þessa árs hafi myndin breyst. „Í rauninni hafa væntingar markaðsaðila breyst því ytri forsendur hafa breyst en verið var að teikna upp allt aðra sýn á félagið í byrjun síðasta árs og byrjun þessa árs,“ segir Jóhanna. Krónan hefur styrkst mikið, lággjaldaflugfélög stækka hratt á markaðssvæði Icelandair og viðsnúningur varð í verðþróun á olíu.

Lággjaldafélög hafa aukið hlut sinn hratt en rekstrarmódel þeirra í …
Lággjaldafélög hafa aukið hlut sinn hratt en rekstrarmódel þeirra í lengri flugum á eftir að sanna sig að mati Jóhönnu.

Lággjaldafélög eftir að sanna sig í lengri flugum

Spurð um mögulegar breytingar á horfum félagsins til framtíðar svarar Jóhanna að mikil samkeppni sé í flugi yfir Atlantshafið. Félög líkt og Norwegian séu að stækka hratt og einnig WOW air sem er í beinni samkeppni við Icelandair.

Það eigi hins vegar eftir að koma í ljós hvernig lággjaldafélögin höndla markaðinn með langdræg flug. Í dag séu þau oftast á styttri flugleiðum og njóta hagkvæmninar sem því fylgir. Hagkvæmni sem erfiðara er að ná á lengri leiðum þar sem starfsmannakostnaður verður óhjákvæmilega hærri. Þá eigi einnig eftir að skýrast hvort viðskiptamódel lággjaldaflugfélaga við verðlagningu á flugsætum verði ráðandi.

Þetta sé eitthvað sem Icelandair er að bregðast við þar sem farþegum verður boðinn sá kostur að borga minna og ferðast án farangurs. Að sama skapi sé WOW air einnig farið að bjóða farþegum að velja verðpakka þar sem töskur eru innifaldar, líkt og hjá Icelandair.

Jóhanna bendir á að rekstrarlíkan lággjaldaflugfélaga eigi að minnsta kosti eftir að sanna sig í langdrægum flugum þar sem tekjuaukningin sem fylgir hraðri stækkun jafngildi ekki endilega góðu rekstrarmódeli til lengri tíma. Telur hún líklegast að einhvers konar hybrid-líkan verði ofan á að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK