Telur að Högum verði sett skilyrði

Finnur Árnason, forstjóri Haga, telur ekki rétt að tjá sig …
Finnur Árnason, forstjóri Haga, telur ekki rétt að tjá sig um framtíðaráform fyrirtækisins með Olís og Lyfju fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samrunana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kaupendastyrkur Hagakeðjunnar, sem þegar er mikill, mun að líkum aukast töluvert við yfirtökuna á Olís. Það mun auka möguleika Haga á að beita viðskiptaaðferðum sem geta gert keppinautum og birgjum erfitt um vik þannig að það jafngildi röskun á samkeppni í skilningi samrunareglna samkeppnislaganna.

Þetta skrifar Eggert B. Ólafsson lögfræðingur og aðalráðgjafi Samkeppnisráðgjafar í nýrri grein á vefsíðu fyrirtækisins vegna yfirtöku Haga á Olíuverzlun Íslands. Eggert hefur um árabil unnið að samkeppnismálum þ. á m. sem sérfræðingur hjá samkeppnisyfirvöldum á Íslandi og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Eggert rifjar upp skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2012 um dagvörumarkaðinn og telur að Samkeppniseftirlitið hefði líklega íhugað að ógilda samruna sem þennan fyrir þremur árum. Núna, vegna innkomu Costco á markaðinn, verði það þó varla uppi á teningnum. „Hins vegar verður að teljast líklegt að Samkeppniseftirlitið setji samrunanum skilyrði,“ segir Eggert. 

Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2012 var markaðshlutdeild Haga á dagvöruvörumarkaði á höfuðborgarsvæðinu um 60%. Þá var ein af niðurstöðum skýrslunnar að vísbendingar væru um að „mikill kaupendastyrkur einstakra verslanasamstæðna eða verslanakeðja leiði til meiri munar á verði til smásöluverslana en réttlætanlegt sé á grunni beins magnhagræðis.“ Þar segir einnig að „vafasamt [væri] að viðskiptakjör birgja til smásöluverslana styðjist í öllum tilvikum við málefnaleg sjónarmið.

Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja samruna Haga og Olís annars …
Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja samruna Haga og Olís annars vegar og Haga og Lyfju hins vegar. mbl.is/Heiðar

Bensínafsláttur með matarkaupum?

Eggert nefnir að á meðal þeirra spurninga sem vakna vegna kaupa Haga á Olís, sé hvort afsláttur hjá Olís verði skilyrtur við kaup á dagvöru í verslunum Haga. Muni Kaupás síðan fylgja í kjölfarið og kaupa Skeljung eða N1 og setja svipaða viðskiptaskilmála? „Slík binding viðskiptavina við viðkomandi viðskiptahring gæti takmarkað tækifæri Costco til að veita íslensku verslunarsamstæðunum samkeppni,“ segir Eggert.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, hefur sagt að ekki sé viðeigandi að ræða um rekstrartækifæri varðandi Olís og Lyfju fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samrunann.

Að lokum segir Eggert að telja verði með hliðsjón af niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins í skýrslunni frá 2012 sem og lýsingu þess á markaðsstöðu Hagasamsteypunnar í málum sem komið hafa til kasta Samkeppniseftirlitsins á undaförnum árum að eftirlitið muni setja samrunanum skilyrði með það fyrir augum að draga úr neikvæðum áhrifum á samkeppni á dagvörumarkaði og aðfangamarkaði dagvöru.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK