Landsbankinn búinn að greiða 350 milljarða króna skuld

Með því að greiða upp skuldabréfin við LBI lækkar Landsbankinn …
Með því að greiða upp skuldabréfin við LBI lækkar Landsbankinn fjármagnskostnað sinn og losar jafnframt um veðsetningu eigna sem stóðu til tryggingar skuldabréfunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn hefur í dag greitt að fullu upp eftirstöðvar skuldabréfa sem gefin voru út til gamla Landsbanka Íslands, nú LBI ehf., vegna eigna og skulda sem færðar voru frá LBI til bankans í október 2008. Við uppgreiðslu námu eftirstöðvar skuldarinnar um 16,2 milljörðum króna en þegar skuldabréfin til LBI voru upphaflega gefin út nam fjárhæð þeirra samtals um 350 milljörðum króna á þáverandi gengi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Með því að greiða upp skuldabréfin við LBI lækkar Landsbankinn fjármagnskostnað sinn og losar jafnframt um veðsetningu eigna sem stóðu til tryggingar skuldabréfunum.

„Góður árangur í rekstri og fjármögnun Landsbankans og batnandi efnahagslegar aðstæður hafa gert bankanum kleift að endurgreiða skuldina við LBI mun hraðar en útlit var fyrir. Þótt eftirstöðvar skuldarinnar við LBI hafi ekki verið hærri en raun ber vitni markar uppgreiðsla hennar töluverð tímamót. Skuldin við LBI var á sínum tíma mjög há, öll í erlendri mynt og endurgreiðslutíminn var tiltölulega stuttur. Landsbankinn nýtur sífellt betri kjara á erlendum lánsfjármörkuðum og með því að greiða upp óhagstæðari skuldabréf við LBI hefur bankinn sparað sér umtalsverðan fjármagnskostnað,” er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans.

Skuldabréfin á milli LBI og Landsbankans voru byggð á samkomulagi sem gert var á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins í október 2008, um flutning á eignum og skuldum frá gamla Landsbanka Íslands hf. til Landsbankans. Skuldabréfin voru í erlendri mynt og átti endurgreiðslu þeirra að ljúka í október 2018.

„Með batnandi stöðu Landsbankans og íslensks efnahagslífs myndaðist fljótlega svigrúm til að greiða fyrirfram inn á skuldina og greiddi bankinn t.a.m. rúmlega 70 milljarða inn á skuldina árið 2012 og 50 milljarða árið 2013. Engu að síður var talið nauðsynlegt að gera breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfanna. Með því að lengja endurgreiðsluferilinn var greitt fyrir afléttingu fjármagnshafta, dregið úr óvissu um erlenda fjármögnun bankans og betri fjármagnsskipan bankans til framtíðar tryggð. Í maí 2014 komust Landsbankinn og slitastjórn LBI að samkomulagi um breytingar á skilmálum bréfanna. Samið var um að lokagreiðsla yrði innt af hendi í október 2026, en að bankinn hefði heimild til að greiða skuldina niður að hluta eða að öllu leyti án kostnaðar hvenær sem er á tímabilinu,” segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK