Valdamestu konurnar fengu hrukkukrem og sokkabuxur

Hér má sjá það sem Brufolt fékk frá blaðinu. Hrukkukrem, …
Hér má sjá það sem Brufolt fékk frá blaðinu. Hrukkukrem, sokkabuxur, poncho, handáburð og fleira. Af Facebook

Duldir fordómar voru til umræðu á viðburði norska viðskiptablaðsins Kapital á miðvikudaginn þegar áhrifamestu konum landsins var fagnað. Það sem skaut þó skökku við var varningurinn sem konurnar fengu eftir kvöldið í boði blaðsins, en þar mátti m.a. finna hrukkukrem, aðhaldssokkabuxur og tímarit um innanhúshönnun.

Norska stjórnmálakonan Sandra Bruflot, sem er varaformaður ungra íhaldsmanna í Noregi, gagnrýndi gjafapokann á Facebook. „Mér fannst frábært að vera boðið á viðburðinn til þess að heiðra valdamestu konur Noregs en ég verð að viðurkenna að ég er með súrt bragð í munninum,“ skrifaði hún.

Kapital hafði valið hundrað valdamestu konur Noregs og birt um það umfjöllun í blaðinu. Á viðburðinum á miðvikudagskvöldið voru konur hvattar til þess að ögra fordómum og standa upp gegn mismunum.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, sem var á toppi lista Kapital, hvatti konur til þess að vera góðar fyrirmyndir. „Það eru margir sem verða mótaðir af þeim konum sem þeir sjá í kringum sig og sjá ef það eru konur sem hægt er að líta upp til,“ sagði forsætisráðherrann.

Í lok kvöldsins fengu gestirnir gjafapoka og eins og fyrr segir vakti innihaldið athygli og þótti á skjön við umræðurnar.

„Ég stóð úti með Tinu Bru [norsk þingkona] og við vorum að skoða þessar vörur og gátum ekki annað en hlegið. Hér voru allar valdamestu konur Noregs að tala um dulin kynhlutverk, væntingar, fordóma og mismunum og svo erum við sendar heim með þessa hluti,“ segir Bruflot í samtali við Aftenposten.

Bendir hún á að hægt hefði verið að gefa konunum margt annað sem myndi styðja við stöður þeirra eins og hleðslutæki eða heyrnartól, „svo við getum tekið þátt í hópsímtölum í lestinni til dæmis?“ nefndi Bruflot. „Þeir ættu að þekkja salinn betur. Þetta er næstum því fyndið.“

Ritstjóri Kapital, Vibeke Holth, sagðist í samtali við Aftenposten vera þeirrar skoðunar að umfjöllunin væri á villigötum. „Kapital gaf út 60 síðna umfjöllun um valdamestu konur Noregs þar sem lögð er áhersla á hæfileikaríkar og duglegar konur í samfélaginu,“ sagði Holth. Sagði hún að með viðburðinum á miðvikudaginn hefði verið lögð áhersla á að heiðra þessar konur og að blaðið hefði fengið mjög jákvæð viðbrögð.

„Spurningin er síðan hvort vörurnar í gjafapokanum hafi verið viðeigandi í samhengi viðburðarins,“ skrifar Holth í skriflegu svari. Vildi hún þó koma því á framfæri að aðhaldssokkabuxur hefðu ekki verið meðal hlutanna í pokanum. Aftenposten segir í frétt sinni að ekki liggi fyrir hvers konar sokkabuxur voru í pokanum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK