Ekki hætta á snöggum samdrætti í ferðaþjónustu

Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur.
Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Hanna Andresdottir

Ferðaþjónustan á Íslandi mun líklega halda áfram að vaxa en þó hægar en síðustu ár. Þó svo að Ísland sé orðinn einn af dýrustu áfangastöðum Evrópu er ekki hætta á snöggum samdrætti í iðnaðinum. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi.

AGS telur að Íslandsferðir muni tolla í tísku áfram og þá sérstaklega vegna vinsælda ævintýraferðamennsku. Þá spilar inn í ánægja ferðamanna og hversu líklegir þeir eru til þess að koma aftur til Íslands samkvæmt rannsókn AGS.

Þá er það mat AGS að svo virðist sem styrking krónunnar hafi ekki dregið úr eftirspurninni og er bent á að fjöldi flugfélaga sem fljúga til Íslands hefur farið úr því að vera sjö í 28 á aðeins átta árum.

„Helstu ástæður þess að mati AGS hversu vel hefur tekist að koma Íslandi á kortið sem eftirsóknarverðum áfangastað eru einkum tvíþættar. Annars vegar þá varð eldgosið í Eyjafjallajökli til þess að vekja áhuga á landinu og hins vegar voru viðbrögð Íslendinga við eldgosinu þau að leggja aukna áherslu á markaðssetningu áfangastaðarins Íslands, bæta innviði flugsamgangna og almennt að liðka fyrir komu ferðamanna til landsins,“ segir í úrdrætti Samtaka atvinnulífsins úr skýrslunni.

AGS bendir þó á að blikur séu á lofti og að það hafi áhrif þegar verðlag í gjaldmiðli ferðamanna hækkar eins mikið og verið hefur hér á landi síðustu misseri. Hinsvegar er AGS ekki svartsýnn um framtíð greinarinnar og telur sjóðurinn mjög hæpið þegar litið er til reynslu annarra þjóða, að íslensks ferðaþjónusta verði fyrir miklu höggi.

„Benda rannsóknir sjóðsins til þess að þær þjóðir sem hafa upplifað vöxt í útfluttri ferðaþjónustu fyrir meira en 4% af landsframleiðslu yfir 10 ára tímabil þá sé afar sjaldgæft að vöxturinn gangi tilbaka. Til að setja það í samhengi þá hefur vöxturinn hér heima verið 7% af landsframleiðslu á aðeins þremur árum. Í þeim tilvikum sem fækkun hefur orðið þá benda rannsóknir AGS til þess að þau tengist iðulega pólitískum óróleika, grotnandi innviðum, yfirtroðnum ferðamannastöðum eða versnandi samkeppnishæfni. Þó pólitískur óróleiki sé lítill á Íslandi þá er vert að vera vakandi yfir hinum orsakavöldum í þessari upptalningu,“ segir í samantekt SA.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK